Bensínlítrinn hækkar um 4 krónur

Olíufélagið hefur hækkað bensínverð um 4 krónur.
Olíufélagið hefur hækkað bensínverð um 4 krónur. mbl.is/Jim Smart

Olíufélagið Esso hefur tilkynnt um 4 króna verðhækkun á bensínlítra og 1,50 króna hækkun á lítra af dísilolíu. Í kjölfar fellibylsins Katrínar, sem gengið hefur yfir Bandaríkin sl. daga hefur heimsmarkaðsverð á eldsneyti hækkað, einkum á bensíni en minna á gasolíutegundum. Olíufélagið segir, að þörf fyrir hækkun á bensíni hér á landi sé nú 8,50 krónur á lítra og 2,80 krónur á dísilolíulítra en ákveðið hafi verið að hækka verðið minna í þeirri von að heimsmarkaðsverð muni lækka á næstunni.

Eftir hækkunina hjá Olíufélaginu er algengt verð á bensínlítra 117,7 krónur í sjálfsafgreiðslu en verð með fullri þjónustu er 122,7 krónur. Verð á dísilolíulítra er nú 114,7 krónur í sjálfsafgreiðslu en 119,7 krónur með fullri þjónustu.

Önnur olíufélög hafa ekki tilkynnt um verðhækkun í dag. Olíufélagið segir á heimasíðu sinni, að vegna lokunar á nokkrum olíuhreinsunarstöðvum í kjölfar náttúruhamfaranna í Bandaríkjunum í byrjun vikunnar hafi orðið mikil hækkun á heimsmarkaði á bensíni en minni á gasolíutegundum og nánast engin á svartolíu og endurspegli þetta sterklega afstöðu framboðs og eftirspurnar á stærsta olíumarkaði heims, sem sé í Bandaríkjunum. Ljóst sé að mikil óvissa ríki enn vegna hamfarana og fjarri því að skýrt sé hvert olíuverðið kunni að stefna á næstu dögum, þótt auðvitað séu væntingar um að það taki fljótlega að lækka aftur.

Bensín hefur hækkað víðar í nágrannalöndunum í morgun, m.a. í Danmörku þar sem lítrinn af 95 oktana bensíni hækkaði um 37 danska aura, jafnvirði 3,8 krónur. Þar kostar lítrinn nú 11,05 krónur eða jafnvirði um 114 íslenskra króna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert