Halldór: Munum sakna Davíðs úr ríkisstjórninni

Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra.
Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra. mbl.is

Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, segir að Davíð Oddsson eigi að baki sér farsælan feril sem stjórnmálamaður og eigi að baki langan stjórnmálaferil. „Við munum sakna hans úr ríkisstjórninni, það hefur verið gott að hafa hans leiðsögn og hann er afar úrræðagóður maður og frábær félagi,“ sagði Halldór, er hann var inntur eftir viðbrögðum við þeirri ákvörðun Davíðs Oddssonar að hætta í stjórnmálum.

„Þetta er ákvörðun sem hann hefur tekið að vandlega íhuguðu máli og við virðum hana. En við munum sakna hans,“ sagði Halldór í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins

Kom þessi ákvörðun þér á óvart? „Já og nei. Þetta hefur verið að brjótast um í honum í nokkurn tíma en ég átti alveg eins von á því að hann myndi halda áfram. En þetta var hans niðurstaða,“ segir Halldór.

Engin ákvörðun um breytingar á ráðherraliði Framsóknarmanna

Spurður um hvort brotthvarf Davíðs muni hafa breytingar í för með sér í íslenskum stjórnmálum segir Halldór að þrátt fyrir að það verði einhverjar breytingar, verði ekki breytingar á stefnu íslensku ríkisstjórnarinnar. „Við munum halda okkar striki og vinna á grundvelli stjórnarsáttmálans sem við gerðum eftir síðustu kosningar. Það hefur skilað okkur góðum árangri og við munum halda áfram á þeirri braut.“

Spurður um hvort til standi að gera breytingar á ráðherraliði Framsóknarflokksins á næstunni, segir Halldór að engin ákvörðun hafi verið tekin um það.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert