Yfirvöldum í New York bárust hótanir um árásir á neðanjarðarlestakerfi borgarinnar

Lögreglumenn ganga niður í neðanjarðarlestarstöðina við Times Square. Yfirvöld í …
Lögreglumenn ganga niður í neðanjarðarlestarstöðina við Times Square. Yfirvöld í New York hafa nú þegar fjölgað lögreglumönnum í lestarkerfinu. Reuters

Yfirvöld í New York borg hafa aukið viðbúnað í neðanjarðarlestakerfi borgarinnar eftir að hafa borist hótun um að mögulega verði gerð hryðjuverkaárás á neðanjarðarlestir í borginni á næstu dögum. Michael Bloomberg, borgarstjóri, og Raymond Kelly, lögreglustjóri, komu fram á blaðamannafundi nú á tíunda tímanum þar sem þeir greindu frá þessu. Þeir sögðu að hótunin væri sú „nákvæmasta“ sem borist hafi til þessa.

Fram kom að hótunin væri nákvæm hvað varðar staðsetningu, tíma og aðferð, og að um væri að ræða sprengjuhótun.

„Við höfum gert allt sem við getum og við munum halda áfram að gera allt sem við getum til þess að vernda þessa borg,“ sagði Bloomberg.

Lögregluyfirvöld segjast hafa sérstakar áhyggjur af töskum í neðanjarðarlestunum og hafa þau nú þegar fjölgað lögreglumönnum í lestunum til muna.

Að meðaltali ferðast um 4,5 milljónir manna með neðanjarðarlestunum á hverjum virkum degi. Lestarstöðvarnar eru hátt í 500.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert