Litli prinsinn fær Tasmaníudjöfla í vöggugjöf

Tasmaníudjöfullinn er krúttlegur en tannhvass.
Tasmaníudjöfullinn er krúttlegur en tannhvass. mbl.is

Tveir Tasmaníudjöflar munu brátt verða til sýnis í dýragarðinum í Kaupmannahöfn en þeir eru gjöf tasmaníska forsætisráðherrans, Paul Lennon, til hins nýfædda, danska prins. Tasmaníudjöflar eru rándýr á stærð við stóran kött, sex til átta kíló að þyngd og gefa frá sér skelfilegt væl.

„Við viljum sýna dönsku þjóðinni eitthvað sem er algjörlega einstakt í Tasmaníu í tilefni af hinni konunglegu fæðingu,“ sagði Lennon á fjölmiðlafundi. Djöflarnir munu þó ekki komast nálægt litla prinsinum, að því er segir í frétt danska dagblaðsins Extra bladet.

Forstöðumaður dýragarðsins í Kaupmannahöfn er að vonum ánægður þar sem afar fá slík dýr eru til í heiminum og ekkert þeirra til sýnis, fram að þessu, utan tasmanískra dýragarða. Óttuðust menn á tímabili að dýrið væri útdautt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert