Áttræð kona reyndi að ræna banka á Ítalíu

Áttræð kona í Genúa á Ítalíu greip til örþrifaráða þegar henni var neitað um bankalán í dag. Konan tók eldhúshníf úr tösku sinni þegar hún var stödd í banka. Hótaði hún gjaldkera og krafðist þess, að hann afhenti sér peninga. Samkvæmt upplýsingum bankans hafði konan óskað eftir því að fá 2000 til 3000 evrur á láni bankanum. Taldi bankinn konuna ekki vera borgunarmann fyrir svo háu láni.

Þetta jafngildir 147.000 til rúmlega 220.000 íslenskra króna.

Þegar konan fékk þær fregnir frá bankanum að upphæðin væri of há sagði hún: „Hafið þið ekkert til að lána mér? Látið mig þá fá alla peningana!“ Að því loknu tók hún eldhúshníf úr tösku sinni og hótaði starfsfólki.

Starfsmenn bankans ýttu á viðvörunarbjöllur og kom lögreglan á staðinn skömmu síðar, sem afvopnaði gömlu konuna.

Konan, sem missti eiginmann sinn fyrir nokkrum árum, gaf þá skýringu á athæfinu að hún næði ekki endum saman vegna hás framfærslukostnaðar.

Bankinn hefur ekkert gefið uppi hvort gamla konan verði kærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert