Stórhertar aðgerðir gegn ólöglegu niðurhali á netinu

Tónlist gömlu rokkhundana í „The Rolling Stones“ er meðal þess …
Tónlist gömlu rokkhundana í „The Rolling Stones“ er meðal þess sem netnotendur ná sér í með ólögmætum hætti með hjálp skráarskiptiforrita. AP

Upptökuiðnaðurinn hefur greint frá því að hann boði til stórhertra aðgerða gegn ólöglegu niðurhali á tónlistarskrám. Alls verða um 2.200 manns lögsóttir m.a. í löndum Evrópu, Asíu og í Suður-Ameríku. Fimm ný lönd hafa bæst í hóp þeirra sem ætla beita sektum til þess að sporna við niðurhali.

Nú geta þeir sem hafa skipts á ólöglegum skrám í Svíþjóð, Sviss, Argentínu, Hong Kong og Singapúr átt von á því að verða refsað fyrir athæfið með háum fjársektum.

Þúsundir, flest karlmenn á aldrinum 20 ára til þrítugs, hefur verið gert að greiða sektir. Mörgum hefur verið gert að greiða um 3.000 dollara, sem jafngildir um 186.000 ísl. kr., fyrir að hlaða skrám, sem njóta höfundaréttar, inn á skráarskiptiforrit (peer-to-peer network).

Alls hafa 3.900 manns verið sektaðir fyrir slík brot í 16 löndum utan Bandaríkjanna.

Þetta eru fjórðu stóru aðgerðirnar sem farið er í frá því að herferðin gegn ólöglegu niðurhali hófst í mars árið 2004.

Aðgerðunum er einna helst beint að stórnotendum og stærstu skráarskiptiforritunum, sem starfa í leyfisleysi. Þar má nefna FastTrack (Kazaa), Gnutella(BearShare), eDonkey, DirectConnect, BitTorrent, WinMX, og SoulSeek.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert