Nýársprédikun Karls Sigurbjörnssonar, biskups Íslands

Nýársdagur 2006 Sálm. 90.1,12

„Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns... Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.” Í Jesú nafni. Amen

Náð sé með yður og friður frá honum sem er og var og kemur, hinum alvalda. Hann gefi oss öllum gleðilegt nýtt ár!

Ég þakka liðið ár. Ég þakka helgar stundir í kirkjum landsins, umfram allt og ekki síst hér í Dómkirkjunni. Trúa þjónustu þeirra sem hér halda uppi helgri iðkun, elskulegt samstarf við sóknarnefnd og starfsfólk kirkjunnar, Dómkór og dómorganista og presta. Guð launi það og blessi allt.

Bænarorðin sem ég fór með hljómuðu hér frá altari áðan, og eru úr nítugasta Davíðssálmi, sálminum sem þjóðsöngur Íslendinga er ortur út af, og var fyrst sunginn hér í Dómkirkjunni á þjóðhátíðinni 1874. Í þeirri bæn horfum við um öxl yfir farinn veg í þökk og fram á við í von á morgni ársins nýja. Við finnum tímans þunga nið með sérstökum hætti. Enginn veit hvað bíður, hvort dagarnir verða margir eða fáir sem framundan eru. Við teljum okkur hafa svo margt á okkar valdi, og í vil. En er það nú víst?

„Kenn oss að telja daga vora...” segir bænin. Við þykjumst nú kunna það. Umkringd tímamælum af öllu tagi, allar stundir upptekin af því að mæla tíma, spara tíma og drepa tíma. Hver veit ekki hvað tímanum líður? Þó er ekki eins víst að öllum sé jafn ljóst hvað klukkan slær eða hverjum hún glymur. „Á snöggu augabragði” geta öll okkar áform, allar okkar ráðstafanir kollvarpast. „Oss sjálfum gafst ein stund, sú stund sem er.” Sagði skáldið, Tómas Guðmundsson. Ekkert annað höfum við í hendi en þá andrá sem er.

Hún er umhugsunarverð frásögnin af auðugum amerískum Gyðingi, sem snemma á síðustu öld fór til Póllands til að heimsækja öldung nokkurn, trúarleiðtoga, sem þar bjó. Þegar hann kom heim til öldungsins, undraðist hann fátækleg híbýli hans. Þar var aðeins rúmfleti, lítið borð og stólgarmur. „Hvar er búslóðin þín, húsgögnin þín, bækurnar þínar?” spurði hann, gáttaður. “Nú?” spurði hinn á móti, „hvar er búslóðin þín? Hvar eru bækurnar þínar?” „Mínar? En ég er á ferðalagi!” “Já, einmitt,” sagði þá öldungurinn, hugsi, „ég líka.”

Líf manns er ferð. Ár og dagar, ævileið, frá móðurskauti og til moldar. Hvernig svo sem leiðin er lögð og fararsniðið, farteskið og ferðatryggingarnar, þar kemur að dagarnir eru taldir. Og hvað þá? Og til hvers er lifað og stritað? Til hvers?

„Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.”

Við kunnum að telja dagana, eins og yfirleitt allt. Allt er talið, skilgreint, vegið og metið. En við hvaða mælikvarða?

Sú saga var sögð á þeim árum þegar Walter Ulbricht, leiðtogi kommúnista í Austur Þýskalandi réði þar lögum og lofum, að þeir hittust hann og guðfræðingurinn Karl Barth. Ulbricht lýsti fjálglega hinu nýja, framsækna samfélagi sem í uppbyggingu væri í alþýðulýðveldinu. Hann hreykti sér af því við guðfræðinginn að kommúnistar myndu kenna boðorðin tíu í öllum skólum landsins, og að fyrirmæli boðorðanna mynduðu siðagrundvöll hins nýja samfélags. Guðfræðingurinn hlustaði af athygli, en sagði svo: „Mig langar bara að spyrja einnar spurningar, ráðherra, munuð þið líka kenna fyrsta boðorðið?”

Tilraunir Ulbrichts og annarra harðstjóra fyrr og síðar í Evrópu til að móta hið guðlausa samfélag, enduðu allar í ógöngum. Þeirra er meðal annars minnst fyrir skelfilega mannfyrirlitningu. Um leið og Guð er settur af þá tekur tortryggnin, óttinn, ófrelsið og einangrunin við og læsa helgreipum allt. Sú reynsla, þau spor hræða.

Fyrsta boðorðið, „Ég er Drottinn Guð þinn. Þú skalt ekki aðra guði hafa,” er nefnilega ekki bara forn og virðulegur texti til að kenna í sunnudagaskólum og fermingarbörnum. Heldur grundvöllur og mælikvarði trúar, og líka siðar og samfélags. Undir því er heill og hamingja manns og heims komin, að það boð og vilji sé virt.

„Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta.”

Skáldið, Matthías Jóhannessen, horfir yfir samtíðina og vísar í söguna fornu af Mídasi konungi, og segir:

„Hver man ekki þegar Bakkus veitti
Mídasi konungi eina ósk og hann
bað um að allt sem hann snerti breyttist
í gull, en óskaði þess svo
að fenginni reynslu að guðinn
léti af örlæti sínu, því allt sem
konungur snerti varð að sólrauðum málmi,
steinn, gras,
korn,
brauð, vatn og vínið að fljótandi gulli
við varir hans, allt varð að málmgylltri snertingu
meðan eyru asnans uxu úr höfði
konungs,
þannig horfum við á asnans eyru
vaxa af hlustum þeirrar nýju samtíðar
sem hefur beðið guðina um sömu ósk
og Mídas.”

Við virðumst í auknum mæli vera að móta samfélag og menningu þar sem flest snýst um afköst og ágóða, og það góða líf sem felst í því að hafa það gott hvað sem það kostar. Ölvuð af óskinni einu um gullið, um auðinn, um fullnæging langana okkar og hneigða á kostnað alls sem raunverulega skiptir máli. Við Íslendingar keppum eftir því að iðnvæðast, og alþjóðavæðast, og sækjum út til stórra sigra. Við höfum lifað mikið vaxtarskeið og gróskutíma á Íslandi, og notið ótrúlegrar velgengni. Við höfum margt að þakka. Þó megum við ekki gleyma að það er ekki fjármagn, tæki, land, sem úrslitum ræður um velferð og hagsæld og lífsgæði, heldur andlegu verðmætin, hugvit, menntun, mannauðurinn. Oft finnst manni óneitanlega vanta í mælikvarða hagvaxtarins þætti eins og andlega heilbrigði, styrk samfélags, áhrif á umhverfið.

Menning hverrar þjóðar verður að byggja á traustum siðagildum og viðmiðum sem miðla af reynslu kynslóðanna en horfa jafnframt fram veginn og lengra en til eins dags. Menntun er einn mikilvægasti þáttur menningarinnar og skiptir sköpum fyrir velfarnað þjóðarinnar. Menntun sem er meir en miðlun upplýsinga, heldur það sem snýst um: „hvassan skilning, haga hönd og hjartað sanna, góða.” Það er óviðunandi tap ef ungmenni sekkur í forheimskun alþjóðlegrar mötunar og inn á öngstræti flóttaleiðanna sem alls staðar eru falboðnar, með sífellt lævísari hætti. Það hlýtur að vera á ábyrgð okkar allra að sjá til þess að enginn falli í sollinn, eða velji alltaf verstu kostina. Leggja þarf áherslu á það uppeldi og skaphafnarmótun þar sem menntun og manngæska helst í hendur, og þar sem athygli er beint að því í hverju sönn lífsgæði eru fólgin.

„Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.”

„Kynslóðir koma,
kynslóðir fara,
allar sömu ævigöng.
Gleymist þó aldrei
eilífa lagið
við pílagrímsins gleðisöng.

Fjárhirðum fluttu
fyrst þann söng Guðs englar,
unaðssöng, er aldrei þver:
Friður á foldu,
fagna þú, maður,
frelsari heimsins fæddur er." sungum við hér áðan.

Nýtt ár er gengið í garð. Árið 2006 eftir Krist, segjum við. Ár okkar eru talin út frá fæðingu frelsarans. „ - - frelsari heimsins fæddur er." Fæðing frelsarans veldur vatnaskilum í veröldinni. Þótt manneskjan virðist söm við sig þá höfum við öðlast nýtt viðmið um það hvað mennska er, hvað réttlæti er, hvað lífið er, og hvað sigra mun um síðir. Barnið í Betlehem, frelsarinn Kristur, hefur helgað sig örlögum jarðarbarna. Af lífi hans, orðum og verkum vitum við að líf sérhverrar manneskju er eilífs gildis. Hann sagði söguna af miskunnsama Samverjanum og tók málstað barnsins, konunnar, útlendingsins, og hins sjúka og fatlaða. Andi hans er að verki að bæta, lækna lífið. Við vitum, eða eigum að vita, að við göngum ekki gegn hans lögum án stórtjóns, ekki aðeins fyrir sál okkar og eilífa velferð, heldur heiminn. Okkur ber að leggja áherslu á mannhelgina, á virðingu fyrir manngildinu, sem er óháð heilsu, þreki, aldri, andlegum og líkamlegum kröftum. Sérhvert mannsbarn er lifandi sál, Guðs gjöf, einstæð og dýrmæt. Þetta viðhorf er eitt hið mikilvægasta sem kristin trú hefur lagt menningu heimsbyggðarinnar til. Og það þarf alltaf að berjast fyrir því!

Það er brýn þörf samstillingar kraftanna til að koma á þjóðarsátt um málefni barna, að heill þeirra og velferð sé sett í forgang. Margt hefur vissulega áunnist. Saman þurfa að fara pólitískar aðgerðir ríkis og sveitafélaga, og almenn viðhorfsbreyting þar sem þarfir barnsins og þeirra sem það annast, eru settar í forgang.

Ég þakka þeim mörgu sem tekið hafa höndum saman um átakið „Verndum bernskuna!” Og þeim mörgu sem fylgt hafa því eftir og þeirri mikilvægu umræðu sem þar er efnt til.

Hvað er að gerast í einni siðmenningu þegar keppikeflið er eitthvað allt annað en að geta af sér börn, og harla lítið rými virðist vera fyrir börnin? Hvað er að gerast í siðmenningu þjóða þegar þær, auðugri, hraustari en nokkru sinni, hafna því að auka kyn sitt og bera nýja kynslóð fram? Það sjáum við í Evrópu. Þjóðum Evrópu fækkar örar nú en nokkru sinni síðan í svarta dauða. Evrópu hefur verið lýst sem “álfan með tómu vöggurnar.” Við Íslendingar skerum okkur úr að þessu leyti, og er það vel. Þjóðin mun ná þrjúhundruðþúsund íbúa markinu á næstunni. Við skulum fagna hverju barni sem hér kemur í heiminn, öll börn ættu að vera óskabörn! Ekki af því að þau uppfylli þarfir foreldra sinna, heldur af því að þau eru ástgjafir Guðs, og englar hans, boðberar umhyggju Guðs og náðar. Sérhvert barn ber þau skilaboð að lífið eigi sér tilgang og framtíð. Hvað bíður barnsins sem skærum augum skimar upp upp í ljósið og daginn? Öfl og áhrif hins illa, upplausn og eyðing, fara ekki fram hjá neinum. En Guð er að verki í heiminum! Afl og áhrif lífsins er að verki, afl og áhrif fyrirgefningar, miskunnsemi, friðar og frelsis, er að verki, og er að ryðja sér braut. Okkur ber að greiða því veg. Guð er að verki, hinn eini, sanni Guð skaparinn, lausnarinn, andinn helgi, sem vill vera Drottinn, Guð þinn. Guð gefi að íslenskum börnum verði ávallt kennt að virða hann, elska hann og biðja.

Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta.”

Biblían gengur út frá því að við lifum í merkingarsamhengi, sem ekki má rjúfa. Þar kemur fram á margvíslega vegu að tilgangur lífsins sé ekki að raunhæfa sjálfan sig og fá sem mest út úr lífinu fyrir sjálfan sig, heldur að við hljótum innsýn í að líf okkar er hluti æðra samhengis. Það er viskan. Viturt hjarta veit sig vera annars eign, og bera ábyrgð gagnvart öðrum, náunganum, lífinu og höfundi þess, og framtíðinni. Við þiggjum lífið að láni.

Jesús Kristur er ómyrkur í máli um skyldur okkar við lífið, og að virða og elska sérhverja manneskju, og eins að standa vörð um lífsins lög. Hann vitnar ítrekað í vilja skaparans sem lesa má í ritningunni: „Hafið þér eigi lesið...” segir hann, enn og aftur. Nú þykjast menn vita betur. Nú þarf ekkert að lesa, maðurinn og tilfinningar hans og hvatir eru álitnir mælikvarði alls. „Nú þarf ekki Guð, ég gat!” sagði kallinn í ævintýrinu. Það fór ekki vel. Og fer aldrei vel. Svo virðist sem viðmið hinnar nýju samtíðar sé nær einvörðungu hvað borgar sig fyrir mig, hvað hentar mér, hvernig get ég fylgt löngunum mínum og hvötum. Þar er lítið rúm fyrir Guð og vitnisburð fornra texta.

Róttækar og hraðskreiðar breytingar eiga sér stað í fjölskyldumálum. Þjóðkirkjan hefur lengi staðið fyrir samtali um málefni samkynhneigðra og fagnað réttarbótum þeim til handa. Ég ítreka að Þjóðkirkjan stendur heilshugar með samkynhneigðum sem einstaklingum, og réttindum þeirra í samfélaginu. Nú kalla ýmsir eftir nýrri skilgreining á hjúskap og hjónabandi, þar sem kyngreining skuli afnumin. Er það stutt ýmsum öflugustu áhrifavöldum samfélags og menningar. Það er ástæða að staldra við. Þjóðkirkjan hlýtur að hika við gagnvart því að viðurkenndum grundvallarhugtökum og viðmiðum sé þannig breytt. Engin kirkja hefur stigið slíkt skref. Um þetta hefur verið deilt á vettvangi kirkjunnar hér sem annars staðar. Augljóst er að kirkjan þarf tíma til að ná niðurstöðu. Ferli ákvarðanatöku hefur verið markað og er niðurstöðu að vænta á árinu 2007.

Löggjafinn getur á hverjum tíma skilgreint hvaða skilyrði séu fyrir hjúskap að lögum. Engum blöðum er um það að fletta. Til þessa hefur hjónaband talist vera sáttmáli eins karls og einnar konu. Er það í samhljóm við grundvallarforsendu sem kristin trú og siður hefur byggt á frá öndverðu, og er sameiginleg öllum helstu trúarbrögðum heims. Enda í samhljómi við lífsins lög. Þessari forsendu getur íslenska ríkið breytt og komið til móts við margvíslegar þarfir, hvatir og hneigðir, og afnumið alla meinbugi. Ef það er framtíðin, já, ef það er framtíðin, þá er eitthvað nýtt orðið til, ný viðmið siðarins, án hliðstæðu í siðmenningunni. Hin aldagamla stofnun sem hjónabandið er er þá afnumin. Þjóðkirkjuprestar og forstöðumenn annarra trúfélaga hafa komið að hjónavígslum vegna þess að hér hefur ríkt samhljómur laga, trúar og siðar í þessum efnum. Ég treysti Alþingi Íslendinga og ríkisstjórn að fara hér með gát, og leyfa hjónabandinu að njóta vafans.

„Kenn oss að telja daga vora að vér megum öðlast viturt hjarta.”
Að læra að telja daga sína áður en dagar manns eru taldir, er það ekki ekki að læra að þiggja hvern dag sem lán til ávöxtunar fyrir lífið og höfund þess? Að lifa í lífsins þágu, lifa í andránni, opinn fyrir öðru fólki og þörfum þess, vitandi sig fyrir augliti Guðs? Viturt hjarta skynjar Guð að verki á lífsferð sinni, og finnur handleiðslu hans í gleði og sorg, gegnum dauða til lífs og eilífrar gleði.

Að þessu sinni ber nýársdag upp á sunnudag, upprisudag lausnarans. Fyrsti dagur hverrar viku er áminning um sigur lífsins, kærleika og fyrirgefningar, sem upprisa hins krossfesta Krists leiddi í ljós. Þar kemur að dagur hans rennur, dýrðarbjartur yfir jörð. Uns við fáum þann dýrðardag að sjá, megi sérhver dagrenning færa okkur blik af þeirri björtu, glöðu von.

„Drottinn, þú hefur verið oss athvarf frá kyni til kyns ... Kenn oss að telja daga vora, að vér megum öðlast viturt hjarta.”

mbl.is