Hringur vegabréfafalsara leystur upp í Kólumbíu

Kólumbíska lögreglan leysti upp glæpahring vegabréfafalsara í tugum áhlaupa í fimm borgum í Kólumbíu og naut til þess aðstoðar bandarískra yfirvalda. Kólumbískur ríkissaksóknari segir glæpahringinn tengjast al-Qaeda hryðjuverkasamtökunum og Hamas-hreyfingu herskárra múslima í Palestínu. Þau ummæli koma embættismönnum, sem vinna að öryggismálum í Bandaríkjunum, á óvart, en þeir segja hina handteknu tilheyra Frelsisher Kólumbíu, FARC, og hafi ekkert með al-Qaeda eða Hamas að gera.

Kólumbísk yfirvöld segja Pakistana, Jórdani, Íraka og Egypta hafa fengið fölsuð vegabréf án þess að hafa komið til landanna sem þau áttu að hafa verið útgefin í. Hluti hinna handteknu er eftirlýstur fyrir að vinna fyrir al-Qaeda og Hamas, að því er dómsmálaráðherra Kólumbíu greindi frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert