Rauði krossinn segir misþyrmingar á föngum brot á alþjóðalögum

Ein myndanna sem ástralska sjónvarpsstöðin SBS sýndi í gær.
Ein myndanna sem ástralska sjónvarpsstöðin SBS sýndi í gær. Reuters

Alþjóðadeild Rauða krossins lýsti því yfir í dag að myndirnar af misþyrmingum á íröskum föngum í Abu Ghraib fangelsinu í Írak, sem ástralska sjónvarpsstöðin SBS, sýndi í gær, væru skýrt brot á alþjóðlegum mannréttindalögum. Alþjóðadeildin hefur hins vegar neitað að tjá sig um það hvort Rauði krossinn muni bera málið upp við stjórnvöld í Bandaríkjunum.

„Við erum hneyksluð yfir misþyrmingunum sem fram komu á myndunum,“ sagði Dorothea Krimitsas, talsmaður Alþjóðadeildarinnar, í samtali við fréttastofuna Reuters í Genf í Sviss. Sagði hún ljóst að misþyrmingarnar væru brot á alþjóðlegum lögum með meðferð fanga.

Nokkrar myndanna höfðu ekki verið sýndar opinberlega áður en þær voru hluti gagna sem notuð voru við réttarhöld yfir bandarísku hermönnunum sem gefið var að sök að hafa misþyrmt föngunum. Charles Graner, einn hermannanna, situr nú af sér 10 ára fangelsisdóm vegna aðildar að málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert