Árni Magnússon: „Þetta er mín persónulega ákvörðun“

Árni Magnússon, félagsmálaráðherra, og Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, ræða við fréttamenn …
Árni Magnússon, félagsmálaráðherra, og Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, ræða við fréttamenn eftir þingflokksfund Framsóknarflokksins í dag. mbl.is/Sverrir

„Við munum sakna Árna mikið úr þessu. Hann hefur reynst okkur afar góður liðsmaður; staðið sig með prýði í sínu ráðuneyti og starfað mjög vel fyrir Framsóknarflokkinn. Ég óska honum velfarnaðar á nýjum vettvangi,“ sagði Halldór Ásgrímsson forsætisráðherra eftir að hann tilkynnti brotthvarf Árna Magnússonar úr stjórnmálum í dag.

Í kjölfarið kynnti Halldór þær breytingar að Siv Friðleifsdóttir komi á ný inn í ríkisstjórn og taki við embætti heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Jón Kristjánsson, heilbrigðisráðherra, mun aftur á móti taka við félagsmálaráðuneytinu. Halldór sagði mikinn einhug ríkja innan flokksins varðandi breytingarnar.

Árni sagði að hann hefði tekið ákvörðun um það fyrir um tveimur til þremur vikum að fara ekki fram í næstu Alþingiskosningum. „Við þær aðstæður finnst mér rétt að víkja af velli og víkja fyrir nýju fólki sem hefur mikinn áhuga á því að starfa í pólitík,“ sagði Árni og bætti því við að honum hefði boðist spennandi starf á alþjóðafjárfestingasviði Íslandsbanka sem hann hefur ákveðið að taka. Þar mun hann leiða starf bankans á sviði endurnýjanlegra orkugjafa.

Aðspurður hvort persónulegar ástæður lægju að baki brotthvarfinu sagði Árni: „Já, þetta er mín persónulega ákvörðun; þarna er ég fyrst og fremst að hugsa um hag minn og minnar fjölskyldu.“

„Stjórnmálin eru heillandi fyrir þá sem eru tilbúnir til þess að gefa sig í þau af fullum krafti. Ég hef verið það framundir þetta; ég er það ekki lengur. Þess vegna finnst mér heiðarlegast að standa þá upp og gefa nýju fólki tækifæri til þess að hasla sér völl á þessu sviði,“ sagði Árni.

Siv segir að heilbrigðisráðuneytið leggist vel í hana. Það sé mikil áskorun enda fari um 40% af útgjöldum ríkisins sem fari til heilbrigðis- og tryggingarmála. „Ég er að taka við mjög góðu búi hjá Jóni Kristjánssyni. Ég er full tilhlökkunar og veit að þetta mun takast mjög vel til hjá okkur,“ segir Siv. Hún vildi ekki gefa neitt um það að svo stöddu hvort áherslubreytinga mætti vænta af hennar hálfu.

Jón Kristjánsson sagðist sömuleiðis fullur tilhlökkunar að fá að takast á við félagsmálaráðuneytið. „Ný verkefni gefa alltaf ný tækifæri. Það er ágætt að skipta um. Ég er búinn að vera í fimm ár í heilbrigðisráðuneytinu. Það er orðinn góður tími og skemmtilegur,“ segir Jón og bætti því við að ljóst væri að sitt gamla ráðuneyti væri erfitt.

Sæunn Stefánsdóttir mun væntanlega taka sæti á Alþingi í stað Árna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert