Búast má við nokkrum minni skjálftum á Krísuvíkursvæðinu

Á kortinu sést hvar skjálftinn átti upptök í dag.
Á kortinu sést hvar skjálftinn átti upptök í dag. mbl.is

Gunnar Guðmundsson, jarðfræðingur á eðlisfræðisviði Veðurstofu Íslands, segir skjálftann, sem varð kl. 14.31 við Krísuvík í dag, hafa verið um 4,6 á Richter-mælikvarða og í um 25 km fjarlægð sé miðað við Kringluna í Reykjavík. Nánar tiltekið hafi hann orðið suðaustur af Kleifarvatni, við Gullbringu. Gunnar segir að búast megi við nokkrum minni eftirskjálftum í kjölfarið næstu daga en ólíklegt að fólk verði þeirra vart á höfuðborgarsvæðinu.

Gunnar segist ekki halda að stærri skjálftar verði á svæðinu á næstunni. Meiri líkur séu á því að stærri skjálftar verði annars staðar en á þessu svæði. Á næstu klukkutímum gætu hins vegar orðið skjálftar allt að 3 á Richter. Skjálftinn hafi fundist vel á höfuðborgarsvæðinu vegna þess hversu stutt er til Krísuvíkur. Almannavörnum höfðu ekki borist neinar tilkynningar af tjóni eða meiðslum á fólki af völdum skjálftans þegar þetta er skrifað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert