Ekki færðar sönnur á að kaupverð bíla hafi verið hærra en vörureikningar sýndu

Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, ræðir við fréttamenn.
Gestur Jónsson, lögmaður Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, ræðir við fréttamenn. mbl.is/ÞÖK

Héraðsdómur Reykjavíkur hefur sýknað alla sakborningana sex í Baugsmálinu svonefnda. Um var að ræða ákærur á hendur fjórum sakborningum fyrir meint brot á lögum um ársreikninga og hegningarlögum og á hendur þremur sakborningum fyrir meint tollsvik og rangfærslu skjala. Dómurinn kemst m.a. að þeirri niðurstöðu, að á þeim árum sem ákæran nái til, hafi ekki verið skylt að tilgreina lán til hluthafa, stjórnenda eða framkvæmdastjóra hlutafélags sérstaklega í efnahagsreikningi, en ákæran var m.a. um að það hefði ekki verið gert. Nægt hafi að geta þeirra í skýringum.

Þá segir í dómnum, að engin þeirra ráðstafana, sem séð verði að ákæran taki til, teljist heldur vera lán í skilningi laga um ársreikninga. Af þessu leiði að ársreikningarnir teljist ekki hafa verið gerðir með röngum og villandi sérgreiningum, eins og í ákærunni segi og að Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, forstjóra Baugs Group, og Tryggva Jónssyni, fyrrverandi aðstoðarforsjóra Baugs, hafi verið óskylt að geta færslna varðandi þær í ársreikningum fyrir árin 1998, 1999, 2000 og 14 mánaða ársreikningi ársins 2001, sem lauk 28. febrúar 2002, hvort sem var í efnahagsreikningi eða í skýringum með ársreikningi.

Tveir endurskoðendur, sem ákærðir voru fyrir að árita ársreikningana, þótt þeir væru með röngum og villandi sérgreiningum, voru einnig sýknaðir enda taldi dómurinn að ársreikningarnir hefðu ekki verið með með röngum og villandi sérgreiningum.

Þau Jón Ásgeir, Jóhannes Jónsson og Kristín Jóhannesdóttir voru ákærð fyrir fyrir meint tollsvik og rangfærslu skjala með því tilgreina kaupverð fjögurra bíla, sem þau keyptu í Bandaríkjunum, lægra í aðflutningsskýrslum en það í raun var.

Dómurinn, sem var fjölskipaður, segir að Jón Gerald Sullenberger hafi borið að verð bílanna hafi verið hærra en það sem kemur fram á vörureikningum Nordica, fyrirtæki Jóns Geralds, og aðflutningsskýrslum með bílunum. Áður hafi komið fram að Jón Gerald virðist bera þungan hug til Jóns Ásgeirs og jafnvel annarra í fjölskyldu hans. Hljóti þetta að draga úr sönnunargildi framburðar hans.

Á hinn bóginn hafi við aðalmeðferð málsins komið fram vitnið Ivan Gabriel Motta, sem útvegaði bílana í Bandaríkjunum, og hafi hann afhent ýmisleg skjalleg sönnunargögn í málið. Þegar framburður hans sé metinn verði þó að hafa í huga að Jón Gerald virðist hafa verið fenginn til þess að fá hann til þess að koma hingað til lands frá Bandaríkjunum til vitnisburðar, að þeir hittust áður þar ytra og að Jón Gerald fór þá yfir skjölin hjá honum, að þeir urðu samferða hingað til lands, bjuggu á sama hóteli og umgengust mikið meðan á dvöl þeirra stóð hér. Þá hafi framburður Motta um sumt verið ruglingslegur.

Dómurinn segir að gegn eindreginni neitun ákærðu, því að vitnin, sem beri gegn þeim, geti ekki talist óaðfinnanleg, takmarkaðs sönnunargildis hinna skjallegu gagna sem lögð voru fram og sumpart óvissu um tilurð þeirra, telji dómurinn, að ekki séu komnar fram sönnur um það, að kaupverð bílanna hafi verið hærra en kemur fram í vörureikningum og aðflutningsskýrslunum. Beri því að sýkna ákærðu af þessum ákæruliðum.

Í dómnum er ákvarðaður sakarkostnaður sem fellur á ríkið. Málsvarnarlaun Gests Jónssonar, verjanda Jóns Ásgeirs, eru ákveðin 15 milljónir króna. Málsvarnarlaun Einars Þórs Sverrissonar, verjanda Jóhannesar, eru 6 milljónir. Málsvarnarlaun Kristínar Edwald, verjanda Kristínar, eru 7,2 milljónir. Málsvarnarlaun Jakobs R. Möller, verjanda Tryggva, eru 4,4 milljónir. Málsvarnarlaun Þórunnar Guðmundsdóttur, verjanda endurskoðendanna tveggja, eru 8,2 milljónir.

Þá nam annar kostnaður, sem sakborningar höfðu af öflun sérfræðiálita og gagna þeim tengdum tæpum 17 milljónum króna, sem einnig greiðast úr ríkissjóði.

Dóminn kváðu upp þeir Pétur Guðgeirsson, Arngrímur Ísberg og Garðar Valdimarsson.

Sigurður Tómas Magnússon, settur saksóknari, ræðir við fjölmiðlamenn eftir að …
Sigurður Tómas Magnússon, settur saksóknari, ræðir við fjölmiðlamenn eftir að dómurinn hafði verið kveðinn upp. mbl.is/ÞÖK
Áheyrendabekkir í Héraðsdómi Reykjavíkur voru þéttsetnir þegar dómurinn í Baugsmálinu …
Áheyrendabekkir í Héraðsdómi Reykjavíkur voru þéttsetnir þegar dómurinn í Baugsmálinu var kveðinn upp. mbl.is/ÞÖK
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert