Guðni Ágústsson skoðaði afleiðingar stórbrunans á Mýrum í gær

Guðni Ágústsson skoðaði í gær Mýrarnar þar sem stórt svæði …
Guðni Ágústsson skoðaði í gær Mýrarnar þar sem stórt svæði brann í síðustu viku. mbl.is/Rax

„Þarna hafa átt sér stað hrikalegar náttúruhamfarir. Landið er illa brunnið og illa farið. Það sem maður dáist mest að er að bændur, slökkvilið og þeir sem börðust við eldinn björguðu þrátt fyrir allt miklu," sagði Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra, en hann fór í gær ásamt Magnúsi Stefánssyni, formanni fjárlaganefndar, um svæði á Mýrum sem varð illa úti af völdum sinuelda í lok síðustu viku og um helgina.

Þeir Guðni og Magnús sátu í gærkvöldi aðalfund Búnaðarfélags Mýramanna, þar sem staða mála var rædd.

Guðni sagði að bændur á Mýrunum sem hann hefði rætt við hefðu einna helst velt því fyrir sér hvernig nota mætti þá þekkingu sem fengist hefði vegna brunanna síðustu daga "svo slökkvilið, ríkisvald og sveitarfélög geti búið sig undir að takast á við svona gríðarlegar náttúruhamfarir af völdum elds". "Ég hygg að slökkviliðin í landinu þurfi að læra á sinuelda og það er ábyggilega hægt að hafa öflugri viðbúnað í frammi ef menn þekkja og búast við þessum aðstæðum," sagði Guðni.

Fram hefði komið á fundinum að þyrla sem flutt hefði vatn yfir eldana hefði reynst afar vel, sem og haugsugur sem notaðar voru til þess að berjast við eldana. Hann sagði að á fundinum hefði jafnframt komið fram að mikilvægt væri að meta það tjón sem orðið hefði. "Mikilvægast er að búa sig undir að þetta getur gerst og vara þjóðina við eldinum og hvað þetta getur orðið gríðarlega hættulegt við svona aðstæður," sagði Guðni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert