Samfylkingin vill taka upp þjónustutryggingu aldraðra og flytja öll málefni þeirra til sveitarfélaga

Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri Reykjavíkur.
Steinunn Valdís Óskarsdóttir, borgarstjóri Reykjavíkur. mbl.is/Golli

Borgarstjórnarflokkur Samfylkingarinnar kynnti í dag hugmyndir sínar um þjónustutryggingu aldraðra en til þess að innleiða hana þurfa öll málefni aldraðra að flytjast til sveitarfélaga. Í tryggingunni felist að veita tiltekna þjónustu innan ákveðins tíma og bótagreiðslur til aldraðra ef það náist ekki.

Í fréttatilkynningu frá Samfylkingunni segir að ríkisvaldið haldi að sér höndum þrátt fyrir að árið 2002 hafi borgarstjóri og heilbrigðisráðherra undirritað viljayfirlýsingu þar sem borgin hafi boðist til að tvöfalda lögboðið framlag til uppbyggingar hjúkrunarheimila sem taka átti í notkun á árunum 2005 og 2007. Sú yfirlýsing hafi mætt andstöðu Sjálfstæðisflokksins og þáverandi fjármálaráðherra sagt hana vera marklaust plagg og án fjárhagslegra forsenda.

„Frá árinu 1998 hafa allir landsmenn undir 70 ára aldri greitt nefskatt upp á 4,8 milljarða í Framkvæmdasjóð aldraðra. Fjármálaráðherra hefur einungis varið rúmum helmingi þess fjár til uppbyggingar í þágu aldraðra eins og til er ætlast. Afgangurinn hefur farið í rekstur. Samfylkingin fordæmir þessa misnotkun á skattfé almennings,“ segir í tilkynningunni.

Borgarstjórnarflokkur Samfylkingarinnar segist ætla að tryggja að á næstu árum verði byggðar að lágmarki 500 íbúðir fyrir aldraða og vill samvinnu við samtök eldri borgara um „fjölgun fjölbreyttra búsetukosta þar sem öryggi og sjálfræði íbúa er tryggt í sjálfstæðri búsetu og aldraðir geti notið hjúkrunar og umönnunar á heimilum sínum.“ Þá á að auka heimaþjónustu og heimahjúkrunar.

Í lögum um málefni aldraðra er fjallað um Framkvæmdasjóð aldraðra í III. kafla og segir þar í 9. gr: „Framkvæmdasjóður aldraðra skal stuðla að uppbyggingu og efla öldrunarþjónustu um land allt. [Fjármagni úr Framkvæmdasjóði aldraðra skal varið til: 1. Byggingar þjónustumiðstöðva og dagvista, sbr. 2. og 3. tölul. 13. gr., og byggingar stofnana fyrir aldraða, sbr. 14. gr., en þó ekki til byggingar íbúða í eigu einstaklinga, félagasamtaka og sveitarfélaga.

2. Að mæta kostnaði við nauðsynlegar breytingar og endurbætur á húsnæði sem notað er til þjónustu fyrir aldraða, sbr. 2. og 3. tölul. 13. gr. og 14. gr., að frátöldum íbúðum í eigu einstaklinga, félagasamtaka og sveitarfélaga.

3. Viðhalds húsnæðis dagvistar-, dvalar- og hjúkrunarheimila.

4. Reksturs stofnanaþjónustu fyrir aldraða í sérstökum tilvikum, sbr. 14. gr.

5. Annarra verkefna sem stuðla að uppbyggingu öldrunarþjónustu.

Lesa má lögin um Framkvæmdasjóð aldraðra í heild sinni með því að smell á tengilinn hér fyrir neðan.

Lög um málefni aldraðra

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert