Flestum börnum líður vel í skólanum

Um 78% reykvískra grunnskólanema í 5. til 7. bekk líður frekar vel eða mjög vel í skólanum. Þetta kemur fram í könnun sem gerð var á vegum Rannsókna og greiningar á líðan ríflega 4000 nemenda. 15% þeirra leið hvorki vel né og illa, en 1,5% leið mjög illa eða 62 nemendum.

Samkvæmt upplýsingum frá menntaráði Reykjavíkur voru einkenni þunglyndis mun algengari í hópi þeirra sem leið illa en hjá öðrum nemendum. Strákum leið að jafnaði betur en stelpum og hlutfall nemenda sem leið vel hækkaði eftir því sem þeir voru eldri.

Fram kom í könnuninni, að þeir þættir, sem helst hafa áhrif á líðan grunnskólanema, eru samvera með fjölskyldu og vinir, en vinirnir skipta æ meira máli eftir því sem nemendur eru eldri. Þeim nemendum, sem leið frekar eða mjög vel, sögðust í yfir 91% tilvika vera oft eða stundum með vinum í frítímanum, en hlutfallið hjá þeim sem leið illa var í 63%. Um 80% grunnskólanema ræðir oft eða stundum við foreldra sína um ýmsa hluti, að því er kemur fram í könnuninni.

Könnunin leiddi í ljós, að miklum meirihluta reykvískra grunnskólanema líður vel í kennslustundum og í frímínútum. Yngri nemendur stríða meira og verða einnig frekar fyrir stríðni. Mest er strítt á skólalóðinni, sem er mjög sterk vísbending til skóla um að fylgjast vel með samskiptum nemenda í frímínútum. Þá kom í ljós, að hrós frá kennara hafði meiri áhrif á líðan heldur en hrós frá öðrum fullorðnum, en mun færri nemendur sögðust oft fá hrós frá kennurum (19%) heldur en frá öðrum fullorðnum (53%).

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert