Geir: Mikil eftirsjá að Halldóri úr stjórnmálum

Geir H. Haarde ræðir við blaðamenn í kvöld.
Geir H. Haarde ræðir við blaðamenn í kvöld. mbl.is/Kristinn

Geir H. Haarde, utanríkisráðherra og væntanlegur forsætisráðherra, kallaði blaðamenn til sín í kvöld í tilefni af því að Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, lýsti því yfir í kvöld að hann ætlaði að hætta í stjórnmálum. Sagði Geir m.a. að mikil eftirsjá væri að Halldóri úr stjórnmálum hér á landi. Hann lagði áherslu á að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks muni starfa áfram og brotthvarf Halldór skapaði engin sérstök vandamál þar.

Geir sagði, að á næstu dögum muni flokkarnir setjast niður og ganga frá því hvernig framhaldið verður. Sagði hann að það væri rangtúlkun hjá stjórnarandstöðunni í kvöld að nýjar stjórnarmyndunarviðræður muni hefjast því þetta yrði áfram sama ríkisstjórnin þótt fram fari stólaskipti og ganga þurfi frá nokkrum lausum endum. Fyrir lægi, að breytingar verði á ráðherraskipun og það væri þingflokkanna að ganga frá tillögum um ráðherra. Þetta muni væntanlega taka nokkra daga.

Geir sagði aðspurður, að nokkrir dagar væru liðnir frá því Halldór skýrði honum frá því að hann hygðist hætta sem forsætisráðherra og þeir hefði rætt málið undanfarna daga. Sagði Geir ákvörðun Halldórs á engan hátt komna til fyrir þrýsting af hálfu Sjálfstæðisflokksins, né tengjast nýafstöðunum sveitarstjórnarkosningum heldur væri þetta ákvörðun Halldórs eins.

Geir sagði einnig, að stjórnarsamstarf flokkanna tveggja hefði verið gott og stæði á á gömlum og góðum merg. Sagðist Geir ekki sjá fram á annað en að stjórnin muni lifa að minnsta kosti út þetta kjörtímabil.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert