Bush óvænt kominn til Bagdad

Bush og Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra í Camp David í gær.
Bush og Donald Rumsfeld varnarmálaráðherra í Camp David í gær. Reuters

George W. Bush Bandaríkjaforseti kom óvænt til Íraks í dag, að því er íraska ríkissjónvarpið greindi frá. Mun tilgangur fararinnar vera að ráðgast við forsætisráðherra landsins, Nuri al-Maliki, en búist hafði verið við að Bush myndi ræða við hann í gegnum myndsíma í dag. Forsetinn mun einnig hitta bandaríska hermenn, en heimsóknin mun aðeins standa í fimm tíma.

Bush hitti al-Maliki innan græna svæðisins í Bagdad, sem er kyrfilega varið, í höll sem áður tilheyrði Saddam Hussein. Þar er nú bráðabirgðasendiráð Bandaríkjanna. Al-Maliki vissi ekki af komu Bush fyrr en fimm mínútum áður en þeir hittust.

„Gaman að sjá þig,“ sagði al-Maliki þegar Bush birtist, og forsetinn svaraði: „Takk fyrir boðið.“ Þeir brostu breitt og heilsuðust innilega. Einungis fáeinir aðstoðarmenn og örfáir fréttamenn vissu að heimsóknin stæði til.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert