Eggjum og saur fleygt í samkynhneigða í Lettlandi

Samkynhneigðir mæta enn skilningsleysi og fordómum
Samkynhneigðir mæta enn skilningsleysi og fordómum AP

Andstæðingar samkynhneigðra hentu eggjum og saur í fólk sem tekið hafði þátt í guðþjónustu í borginni Ríga á Lettlandi. Samkynhneigðum var bannað að halda „Gay Pride" göngu í Lettlandi í dag, og voru aðrir viðburðir skipulagðir í stað hennar. Samkynhneigðir komu saman á hóteli í miðborg Ríga til að sýna að þeir yrðu ekki bugaðir. Mótmælendur mættu þar líka og kallaði talsmaður öfga-þjóðernishreyfingarinnar NSS samkynhneigða siðlausa, skítuga syndgara sem ekki væri rúm fyrir í eðlilegu samfélagi.

Maður sem mætti til að mótmælanna með tvo unga syni sína sagðist hafa komið þar sem hann tryði biblíunni, sem segði að samkynhneigð væri synd, hann bætti við að ef samkynhneigðir fengju að hafa sínu fram ættu synir hans enga framtíð.

Fjórtán voru handteknir vegna mótmælanna og verður einn kærður. Juris Calitis, presturinn sem hélt messu samkynhneigðra, sagði stjórnvöldum um að kenna og sakaði þau um að hvetja til haturs. Yfirvöld í Ríga hafa verið gagnrýnd fyrir að banna gönguna af öryggisástæðum og er því haldið fram að forsendurnar sé illa falið yfirskin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert