Microsoft staðfestir útgáfu Zune

Svona mun Zune líta út
Svona mun Zune líta út

Þótt Microsoft hafi borið höfuð og herðar yfir keppinaut sinn Apple undanfarin þrjátíu ár, þá hefur hinn síðarnefndi náð forystu hvað varðar einn þátt tæknibyltingarinnar. Apple einokar nær markaðinn á heimsvísu þegar kemur að svokölluðum mp3-spiladósum. Microsoft hefur hins vegar staðfest háværan orðróm um að fyrirtækið ætli slást í leikinn og framleiða mp3-spilara í eigin nafni.

Tækið hefur fengið nafnið Zune og er jafnvel mögulegt að fyrstu slíku tækin komi á markað á þessu ári. Chris Stephenson, yfirmaður markaðssetningar hjá Microsoft segir í viðtali við BBC að til standi að setja á markað röð tækja auk hugbúnaðar.

iPod spilarar hafa um 50% markaðshlutdeild hvað tæki varðar, en um 70% þeirrar tónlistar sem seld er á netinu er seld um iTunes verslunina. Það er því á brattann að sækja hjá Microsoft, og telja sérfræðingar að erfitt verði fyrir fyrirtækið að ná álíka árangri og Apple.

Ekkert hefur opinberlega verið gefið upp um það hvernig tækin verða, en samkvæmt upplýsingum sem hafa lekið frá herbúðum Microsoft munu tækin verða búin þráðlausum netbúnaði svo hægt verði að hlaða niður tónlist án þess að nota snúrur, og án þess að tölva komi nærri.

Þá er talið víst að Microsoft muni bjóðast til að gefa kaupendum Zune alla þá tónlist sem þeir hafa þegar keypt af iTunes. Apple og aðrir seljendur tónlistar um netið hafa verið harðlega gagnrýndir fyrir að selja tónlist sem bundin er við sérstök tæki. Þá geta Zune tækin leikið myndskeið, líkt og síðustu útgáfur iPod.

Tækin verða kynnt formlega í lok næsta mánaðar, og er talið að þau fyrstu komi á markað seint á þessu ári.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert