Mótmælunum við Reyðarfjörð lokið

Allir mótmælendurnir sem höfðu tekið sér bólfestu í byggingarkrönum á …
Allir mótmælendurnir sem höfðu tekið sér bólfestu í byggingarkrönum á byggingarsvæði Fjarðaáls eru nú komnir niður á jörðina. mbl.is/Helgi Garðarsson

Eftir eitthvert þóf var síðasti mótmælandinn látinn síga niður úr byggingakrananum sem hún hafði klifrað upp í nú upp úr hádegi. Hafði stúlkan færst undan lögreglumönnunum efst uppi í krananum en kom síðan tilbaka og til móts við þá við efsta liðinn í krananaum þar sem þeir settu hana í sigbelti og létu hana síðan síga niður til jarðar. Verður parið sem sat lengstu mótmælasetuna væntanlega fært til yfirheyrslu eins og hinir mótmælendurnir og að öllum líkindum getur vinna hafist við framkvæmdir á svæðinu nýjan leik.

Óskar Guðmundsson staðgengill yfirlögregluþjóns á Eskifirði sagði að aðgerðum lögreglunnar á byggingasvæði álversins við Reyðarfjörð væri nú lokið. Hann sagði að það hefðu verði menn úr sérsveitum ríkislögreglustjóra sem náðu parinu niður úr öðrum krananum.

„Það er öruggt," sagði hann er hann var spurður hvort þau yrðu kærð fyrir einhver lögbrot.

„Þau eiga yfir sér önnur mál sem eru ekki kláruð en það er ekki búið að taka ákvörðun um hvað verður gert," sagði Óskar er hann var spurður hvort mótmælendunum yrði þá haldið í landinu á meðan málið væri í vinnslu.

Var ekki fyrirsjáanlegt að þetta myndi gerast með tilliti til þeirra mótmæla sem þetta sama fólk hefur haft á verkfræðiskrifstofum sem tengjast álverinu? „Jú, þetta er fyrirsjáanlegt og við áttum alveg von á þessu," sagði Óskar. Hann benti á að vinnusvæðið sé ákaflega víðfeðmt og að þarna væri verið að vinna með mjög marga krana. „Það er óvinnandi vegur að fara að vakta þetta allt," sagði Óskar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert