Framkvæmdastjóraskipti í Sjálfstæðisflokknum

Valhöll
Valhöll

Kjartan Gunnarsson hefur ákveðið að láta af störfum sem framkvæmdastjóri Sjálfsstæðisflokksins eftir 26 ára starf í þágu flokksins.  Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins kom saman til fundar í dag þar sem ákvörðunin var tilkynnt.  Á fundi miðstjórnar var ákveðið að ráða Andra Óttarsson, héraðsdómslögmann, í starf framkvæmdastjóra Sjálfstæðisflokksins í stað Kjartans Gunnarssonar og mun hann taka formlega við störfum á næstu vikum.

Andri Óttarsson er 31 árs gamall.  Hann lauk embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 2001 og öðlaðist málflutningsréttindi fyrir héraðsdómi ári síðar.  Andri hefur starfað hjá Lögmönnum við Austurvöll frá útskrift og verið meðeigandi í lögmannsstofunni frá 2004.  Hann hefur síðastliðið ár lagt stund á meistaranám í mannréttindum við Raoul Wallenberg stofnunina og Háskólann í Lundi, Svíþjóð.

Andri hefur gegnt margvíslegum trúnaðarstörfum fyrir Sjálfstæðisflokkinn.  Hann hefur til að mynda setið í stjórn Heimdallar, í stjórn Sambands ungra sjálfstæðismanna, auk þess sem  hann hefur komið að kosningastjórn víða um land.  Andri situr í útvarpsráði fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins.

Andri var oddviti Vöku, félags lýðræðissinnaðra stúdenta, í stúdentaráði Háskóla Íslands 1998-1999, ásamt því að gegna fjölmörgum trúnaðarstörfum fyrir félagið.  Hann var stjórnarformaður Félagsstofnunar stúdenta 2002-2005.  Andri hefur verið ritstjóri Deiglunnar, vefrits um þjóðmál, frá 2005.

Andri Óttarsson
Andri Óttarsson
Kjartan Gunnarsson og eiginkona hans Sigríður Snævarr
Kjartan Gunnarsson og eiginkona hans Sigríður Snævarr
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert