Bandaríkjaforseti ítrekar andstöðu sína við pyntingar

Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna.
Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna. AP

George W. Bush Bandaríkjaforseti hefur ítrekað að Bandaríkjastjórn láti ekki pyntingar viðgangast en Dick Cheney, varaforseti Bandaríkjanna, hefur sætt harðri gagnrýni eftir að hann sagði í sjónvarpsviðtali að hann teldi ásættanlegt að dýfa grunuðum hryðjuverkamönnum í vatn við yfirheyrslur, gæti það bjargað bandarískum mannslífum. Þetta kemur fram á fréttavef BBC.

"Þetta ríki beitir ekki pyntingum og mun ekki beita pyntingum," sagði Bush í Washington í dag er ummæli Cheney voru borin undir hann. "Við yfirheyrum menn sem við handsömum á orrustuvellinum til að meta það hvort þeir búi yfir vitneskju sem mun reynast hjálpleg við að verja land okkar."

Cheney var spurður að því á blaðamannafundi á þriðjudag hvort hann teldi slíkt ásættanlegt en ummæli hans komust ekki í hámæli fyrr en á föstudag. Hann mun þó hafa bætt því við að hann væri ekki samþykkur pyntingum en að hann teldi að beita mætti hörku við yfirheyrslur án þess að fara út í pyntingar. Talið er að Cheney hafi með ummælum sínum vísað til pyntingartækni þar sem þolendur eru látnir halda að verið sé að drekkja þeim. Talsmaður Hvíta hússins hefur hins vegar vísað því á bug og sagt orð varaforsetans hafa verið almenn og að þau hafi átt við um löglegar yfirheyrsluaðferðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert