Áhyggjum lýst af ímynd Íslands í umhverfismálum

Frá Alþingi.
Frá Alþingi. mbl.is/Kristinn

Þingmenn ræddu í upphafi þingfundar í dag þær fréttir, sem borist hafa af af því að bandaríska verslunarkeðjan Whole Foods Market hafi ákveðið að hætta markaðssetningu á íslenskum vörum í verslunum sínum vegna atvinnuhvalveiða Íslendinga. Gagnrýndu þingmenn stjórnarandstöðunnar sjávarútvegsráðherra fyrir hvalveiðiyfirlýsingar og fyrir að standa gegn tillögum um tímabundið bann við botnvörpuveiðum á alþjóðlegum hafsvæðum.

Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður VG, hóf umræðuna og lýsti áhyggjum af þeim skaða, sem hvalveiðar Íslendinga yllu á því markaðsstarfi, sem unnið væri í útlöndum. Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegsráðherra, sagði að til lengri tíma myndu áhrifin af þessum viðbrögðum hverfa og íslenska þjóðin myndi ekki skaðast þegar frá liði.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði að sjávarútvegsráðherrann síkáti, eins og hún orðaði það, gæti ekki talað sig frá þeim afrekum, sem hann hefur unnið, að brjóta niður orðspor Íslands í umhverfismálum á alþjóðavettvangi. Það snérist ekki aðeins um hvalveiðimál heldur einnig um það hvernig ráðherrann hefði beitt sér á vettvangi Sameinuðu þjóðanna gegn tímabundnu banni við botnvörpuveiðum á alþjóðlegum hafsvæðum.

Vísaði Ingibjörg Sólrún m.a. til greinar í víðlesnum erlendum dagblöðum þar sem Íslendingum hafi verið kennt um, að menn nái ekki árangri í friðun alþjóðlegra hafsvæða. „Þetta er ekki það orðspor, sem við viljum hafa á alþjóðlegum vettvangi," sagði hún.

Fleiri þingmenn Samfylkingar tóku í svipaðan streng. Pétur H. Blöndal, þingmaður Sjálfstæðisflokks, sagði hins vegar að menn væru í viðskiptum vegna þess að báðir aðilar hefðu af þeim hag og það væri fjarlægt, að blanda trúarbrögðum, umhverfisstefnu eða öðru slíku inn í þau mál. Pétur sagði, að ferðamannaiðnaður hér á landi hefði ekkert minnkað þrátt fyrir hvalveiðar og væri fjöldi erlendra ferðamanna jafnvel til vandræða á sumrin. Þá hefði hvalaskoðun hefur aldrei sýnt eins mikinn vöxt og eftir að hvalveiðar hófust. Pétur sagðist telja, að að íslenska lambakjötið væri afskaplega góð vara, þótt það væri of dýrt, og myndi því seljast áfram. Það sama mætti segja um íslenska fiskinn. „Íslensk náttúra hefur enga samkeppni og vilji fólk ekki koma til Íslands til að sjá náttúruna þá er það þeirra vandamál en ekki mitt," sagði Pétur.

Guðjón A. Kristjánsson, þingmaður Frjálslynda flokksins, sagðist telja eðlilegt að sumar hvalategundir væru nýttar með skynsamlegum og sjálfbærum hætti. „Við vitum að við munum fá andbyr við hugmyndum okkar, það hefur alltaf legið fyrir," sagði hann.

Kolbrún Halldórsdóttir sagði í lok umræðunnar, að Einar K. Guðfinnsson hefði gert lítið úr því starfi, sem sérhæfðir markaðsmenn hefðu unnið til að kynna Ísland og íslenskar afurðir á alþjóðavettvangi. Því neitaði Einar og sagði, að gagnrýndur Sjávarútvegsráðherra sagði að Ísland gerði einmitt út á það að vera ríki, sem hafi vit á að nýta auðlindir með ábyrgum og sjálfbærum hætti. Einari fannst hins vegar hafa gerst mikil tíðindi í umræðunni. Þau að talsmenn Samfylkingarinnar hefðu kveðið upp úr um það, að þeir vilji leggjast á sveif með þeim sem vilja banna botnvörpuveiðar í úthöfunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert