Ríkislögreglustjóri og saksóknari úrskurðaðir vanhæfir

Verjendur í réttarsal Héraðsdóms Reykjavíkur í dag.
Verjendur í réttarsal Héraðsdóms Reykjavíkur í dag. mbl.is/RAX

Héraðsdómur Reykjavíkur féllst í dag á þá kröfu verjenda fimm einstaklinga, tengdum Baugi, að Haraldur Johannessen, ríkislögreglustustjóri, og Jón H. B. Snorrason, saksóknari og yfirmaður efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, séu vanhæfir til að stýra rannsókn á meintu skattalagabroti fimmmenninganna. Dómurinn féllst hins vegar ekki á kröfu verjendanna um að rannsókninni yrði hætt.

Skattamálið tengist rannsókn embættis ríkislögreglustjóra á meintum skattalagabrotum Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, Jóhannesar Jónssonar, Kristínar Jóhannesdóttur, Tryggva Jónssonar og Stefáns Hilmarssonar. Lögmenn fimmenningana héldu því fram, að brotið hafi verið gegn rétti þeirra til þess að teljast saklausir uns sekt er sönnuð þar sem yfirmenn ríkislögreglustjóra hafi þá skoðun að þeir séu sekir. Var vísað í viðtal við Harald Johannessen ríkislögreglustjóra í Blaðinu þar sem hann sagði að rannsókn á skattamálunum muni fara fyrir dóm sem skattsvikamál. Einnig var vísað í ummæli Jóns H. B. Snorrasonar, saksóknara efnahagsbrotadeildar ríkislögreglustjóra, einnig í Blaðinu, þar sem hann sagði að ef einhver bryti af sér á þessu sviði lenti hann hjá efnahagsbrotadeild til rannsóknar.

Eggert Óskarsson, héraðsdómari, segir í úrskurði sínum að ekki sé fallist á að með ummælum í fjölmiðlum hafi verið sýnt fram á að sekt sakborninga hafi verið ákveðin fyrirfram. Hins vegar sé rannsókn á meintum skattalagabrotum augljóslega upphaflega hluti af Baugsmálinu svonefnda. Við mat á því hvort ríkislögreglustjóri sé vanhæfur vegi þungt tiltrú sóknaraðila á óhlutdrægni hans í kjölfar yfirlýsinga um vanhæfi embættisins eftir að Baugsmálinu var vísað frá í Hæstarétti. Með þeim og því að fela ríkissaksóknara forræði Baugsmálsins í kjölfarið verði að telja, að fyrir hendi séu aðstæður, sem séu fallnar til að draga óhlutdrægni ríkislögreglustjóra gagnvart fimmmenningunum í efa með réttu. Er því fallist á kröfu um að Haraldi Johannessen sé skylt að víkja sæti við rannsóknina og að Jóni H. B. Snorrasyni, sem stýri rannsókn málsins í umboði ríkislögreglustjóra, sé einnig skylt að víkja sæti.

Dómarinn segir hins vegar að sú niðurstaða leiði ekki til vanhæfis annarra starfsmanna embættis ríkislögreglustjóra enda verði undirmaður hans ekki sjálfkrafa vanhæfur til meðferðar máls þótt yfirmaður hans sé það, samkvæmt reglum stjórnsýsluréttar. Engum rökum hafi verið leitt að því hvers vegna allir starfsmenn embættis ríkislögreglustjóra eigi að víkja sæti við rannsóknina og er þeirri kröfu því hafnað.

Þá segir í úrskurðinum, að dómari hafi engar forsendur til að meta hvort vanhæfi ríkislögreglustjóra og saksóknara eigi að leið til ógildingar á rannsókn málsins og er þeirri kröfu því hafnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert