Um kílómetra löng olíubrák við Wilson Muuga

Flak Wilson Muuga er nánast komið að ströndinni, eins og …
Flak Wilson Muuga er nánast komið að ströndinni, eins og sést á þessari mynd, sem tekin var í dag. mbl.is/Ómar Smári

Svartolía byrjaði í dag að leka úr flaki flutningaskipsins Wilson Muuga á strandstað við Hvalsnes. Liggur olíutaumur í átt til lands. Umhverfisstofnun segir, að um miðjan dag í dag á háfjöru virðist hafa náð að vatna undan botngeymum þar sem enn er svartolíu að finna og þá hafi svartolía byrjað að leka úr rifnum botntönkum skipsins.

Í tilkynningu frá Umhverfisstofnun segir, að enn eitt illviðrið hafi gengið yfir Suðvesturland í nótt og yfir Wilson Muuga þar sem skipið situr strandað við Hvalsnes. Nú sé það versta yfirstaðið þar sem saman hafi farið hæsti straumur, áhlaðandi og mikill vindur, þótt spáð sé belgingi í nótt.

Í morgun þegar starfsmenn á vegum Umhverfisstofnunar fóru um borð með þyrlu Landhelgisgæslu Íslands var ástand skipsins að mestu leyti óbreytt. Olíusmit, sennilega smurolía úr vélarrúmi, barst frá skipinu. Skipið situr stöðugt á fjörunni, hefur þó færst eilítið nær landi síðustu nótt og situr því hærra.

Umhverfisstofnun segir, að um miðjan dag á háfjöru virðist hafa náð að vatna undan botngeymum þar sem enn er svartolíu að finna og þá hafi svartolía byrjað að leka úr skipinu. Meðal verkefna í skipinu í dag var að setja einstreymisloka á öndunarop sem liggur frá botngeymunum upp á yfirborð. Þegar því verki var lokið dró umtalsvert úr lekanum og þegar farið var frá borði var ástandið þannig að flekkurinn hafði slitnað frá skipinu.

Fulltrúar frá heilbrigðiseftirliti Suðurnesja og umhverfisnefnd Sandgerðis skoðuðu fjörur við strandstað og í næsta nágrenni og olíubrák sást, um kílómeter á lengd og um 200 metra breið. Brákin er ekki samfelld en þó hafði olía safnast í einstökum víkum. Við fjörukönnun sást enginn olíublautur fugl en vegna mikils fuglalífs er að sögn Umhverfisstofnunar talið sennilegt að fugl muni lenda í þessari olíu.

Með flóði og auknu brimi samfara vaxandi vindi nú með kvöldinu eykst hreinsimáttur náttúrunnar og því munu náttúruöflin sjá um að brjóta olíuna niður í nótt.

Áætlað er að fljúga yfir svæðið strax í birtingu til könnunar á olíuflekk og senda mann í skipið þannig að hægt sé að kíkja í lestar og geyma. Gengnar verða fjörur og fylgst verður með skipinu af og til. Í framhaldi af þessu verður staðan endurmetin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert