Halla gefur kost á sér í formannskjöri KSÍ

Halla Gunnarsdóttir.
Halla Gunnarsdóttir. mbl.is/Ómar Óskarsson

Halla Gunnarsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, hefur ákveðið að bjóða sig fram til formanns Knattspyrnusambands Íslands á ársþingi KSÍ sem fram fer 10. febrúar. Þrír aðilar hafa tilkynnt um framboð til formanns KSÍ en auk Höllu eru Geir Þorsteinsson og Jafet Ólafsson í framboði.

Halla hefur þjálfað yngri flokka og leikið sjálf með félagsliðum hér á landi en á fundi með fréttamönnum í morgun sagði Halla m.a. að knattspyrnan ætti að vera fyrir alla.

Ræðan sem Halla hélt í morgun var svohljóðandi:

Kæra fjölmiðlafólk

„Ég vil auðvitað byrja á að þakka ykkur fyrir að koma enda málefnið mikilvægt, um er að ræða forsvarsmann stærstu íþróttahreyfingar landsins. Ég þarf varla að fjölyrða um gildi íþrótta í forvarnarstarfi, eflingu félagsþroska, og hvers annars sem sérfræðingar fróðari mér hafa sýnt fram á. Íþróttasamband Íslands hefur lengi notað slagorðið Íþróttir fyrir alla. Eðlilegt er að Knattspyrnusamband Íslands tileinki sér þessa hugsun og tali fyrir knattspyrnu fyrir alla.
Því miður hefur það stundum ekki verið raunin.
Þótt mikið vatn hafi runnið til sjávar undanfarin ár þá hefur Knattspyrnusambandið stundum gleymt sér og einblínt um og of á afreksknattspyrnumenn. Það hefur komið niður á þeim sem síst mega við því. Starfsemi yngri flokka er og verður hornsteinn knattspyrnu á Íslandi. Að henni þarf að hlúa.

Undanfarin ár hefur verið unnið mikið starf í þágu knattspyrnu barna. Ber þá hæst uppbygging sparkvalla um allt land sem gefa börnum tækifæri á að leika sér í fótbolta, án þess að það þurfi allaf að vera bundið við skipulagðar æfingar. En enn kemur það þó fyrir að börn hrökklist út úr íþróttinni með lítið sjálfstraust. Þarna skiptir menntun þjálfara höfuðmáli. Annað er þó verra og það er hvernig staðið hefur verið að kvennaknattspyrnu á landinu undanfarin ár. Kvennalandsliðið, sem hefur staðið sig með sóma á alþjóðavettvangi, hefur fengið skammarlega lítinn stuðning. Sama má segja um úrvaldsdeild kvenna en skemmst er að minnast umræðu um skiptingu verðlaunafjár milli kvenna- og karladeildarinnar. Meðan ástandið er svona hjá bestu knattspyrnukonum landsins er augljóst að ekki er vel hlúð að þeim sem yngri eru.
Í þessum efnum þarf eina allsherjar tiltekt.

Að þessu sögðu, vil ég tilkynna hér formlega framboð mitt til formanns Knattspyrnusambands Íslands.

Fótbolti hefur verið mitt líf og yndi frá því að ég 6 ára gömul gekk í fyrsta sinn út á völl og spurði hvor ég mætti vera með. Ég er hins vegar ekki afrekskona, heldur fyrst og fremst leikmaður með ástríðu fyrir leiknum. Ég hef þjálfað börn og unglinga í þremur löndum, komið að stofnum fótboltaliðs í Tælandi og uppbyggingu knattspyrnuvallar í sígaunahverfi í Rúmeníu þar sem kynþáttafordómar koma í veg fyrir að sígaunakrakkar geti leikið sér í fótbolta á öðrum velli bæjarins.

Ég ætla ekki að hafa þetta lengra að sinni en gef kost á viðtölum að loknum fundinum.

Ég hlakka til góðrar og sanngjarnar baráttu um formannssætið í KSÍ.

Fótbolti fyrir alla!“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert