Sótt um mánaðarfrest til að ákveða örlög Wilson Muuga

Nesskip hf. hefur sótt um frest í einn mánuð til að ákveða hvernig farið verður að því að ná Wilson Muuga í land, sem strandaði við Hvalsnes fyrir mánuði síðan. Að sögn Guðmundar Ásgeirssonar, stjórnarformanns Nesskips, eru þrír möguleikar færir, að reyna að ná skipinu á haf út, að draga það í land, eða leyfa því að standa á sínum stað. Allir valkostirnir eru þó slæmir að mati Guðmundar.

Ef reynt verður að þétta skipið og draga á haf út er hætta á að það strandi aftur, og er þá ekki hægt að hafa neina stjórn á því hvernig það kemur í land. Mikið rask fylgir þeim kosti að grafa fyrir skipinu og draga það í land og brytja niður í fjörunni. Þá er mögulegt að leyfa skipinu að standa þar sem það er, en ómögulegt er að vita hve lengi það stendur þá og hvernig það skilar sér í land þegar það losnar.

Farið var út í Wilson Muuga í gær og voru það m.a. menn frá Umhverfisstofnun, Olíudreifingu og Landsbjörgu. Megintilgangur ferðarinnar var að dæla sjó úr lestum skipsins til að kanna hvort meiri olía komi úr tönkum við það að pláss myndist í lestinni. Munu þær aðgerðir hafa gengið vel.

Þá voru teknir lausamunir, m.a. tæki og tölvur sem björgunarsveitir fá fyrir störf sín við björgunaraðgerðir.

Skipið er ónýtt og endar sem brotajárn hvernig sem farið verður að því að losa það, því felast lítil verðmæti í því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert