Borgarstjóri harmar að Reykjavíkurborg eigi að vera vettvangur klámráðstefnu

Auglýsingaspjald fyrir SnowGathering klámþingið sem halda á á Íslandi.
Auglýsingaspjald fyrir SnowGathering klámþingið sem halda á á Íslandi.

Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson borgarstjóri segir það miður að Reykjavíkurborg verði vettvangur rástefnu framleiðenda klámefnis og jafnvel athæfis sem bannað er með lögum hér á landi. Svo segir í svarbréfi Vilhjálms við áskorun Stígamóta um að stjórnvöld og borgaryfirvöld komi í veg fyrir ráðstefnuna. Það sé yfirlýst stefna borgarinnar að vinna gegn klámvæðingu og vændi.

Bréfið er svohljóðandi: ,,Ég hef móttekið áskorun Stígamóta þar sem ráðamenn þjóðarinnar eru hvattir til þess að koma í veg fyrir að ráðstefna nærri 100 framleiðenda klámefnis fyrir netmiðla verði haldin í Reykjavík í næsta mánuði.

Mér þykir það afar miður að Reykjavíkurborg skuli eiga að verða vettvangur slíkrar ráðstefnu og hugsanlega jafnframt vettvangur athæfis sem bannað er með íslenskum lögum.

Það er yfirlýst stefna Reykjavíkurborgar að vinna gegn klámvæðingu og vændi. Það er því í mikilli óþökk borgaryfirvalda ef umrædd ráðstefna verður haldin hér í borg.

Ekki einungis er hér að um að ræða málefni sem hefur afar óæskileg áhrif á samfélagsþróun og sjálfsmynd ungmenna, heldur grefur ráðstefna klámframleiðanda undan því öfluga markaðsstarfi sem unnið hefur verið hér á landi undanfarin ár og ímynd landsins sem miðstöðvar heilbrigðs lífernis, lýðræðis og jafnréttis.

Ég hef þegar hvatt lögregluembættið til þess að rannsaka hvort þátttakendur í hópi ráðstefnugesta kunna að vera framleiðendur barnakláms, auk annars ólögmæts klámefnis, ef það mætti verða til þess að koma í veg fyrir dvöl meintra kynferðisbrotamanna hér á landi eða til þess að upplýsa um ólögmæta starfsemi.

Borgarstjórinn í Reykjavík."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert