Hækkanir í kortunum hjá sjálfsgreiðslustöðvunum

Bensíndropinn hefur hækkað hjá stóru bensínstöðvunum og búast má við …
Bensíndropinn hefur hækkað hjá stóru bensínstöðvunum og búast má við því að sjálfsafgreiðslustöðvarnar fylgi fljótlega í kjölfarið. mbl.is/Golli

Að sögn forsvarsmanna bensínstöðva Atlantsolíu og Orkunnar eru verðhækkanir á bensíni og dísilolíu í kortunum. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hvenær verðið mun hækka, en búast má við því fljótlega.

Í gær hækkaði verð hjá bensínstöðvum Essó og Olís, og í dag hækkaði verð hjá Skeljungi.

Lítri af bensíni hækkaði um tvær krónur hjá Essó, en dísil-, gas- flota- flotadísil- og svartolía hækkaði um eina krónu á lítra.

Eftir hækkunina varð algengasta verð á 95 oktana bensíni hjá Olíufélaginu kr. 114,80 á lítra, miðað við sjálfsafgreiðslu. Sama er uppi á teningnum hjá Olís og Skeljungi, þ.e. algengasta verðið í sjálfsafgreiðslu er 114,80 kr.

Samkvæmt upplýsingum sem sjá má á vef Atlantsolíu kostar bensínlítrinn þar nú 111,2 kr., en dísilolía kostar 112,1 kr.

Hjá Orkunni kostar bensínlítrinn 111,1 kr. á höfuðborgarsvæðinu, en víða á landsbyggðinni kostar lítrinn 108,4. Á Dalvegi í Kópavogi kostar hinsvegar bensínlítrinn 108,6 kr. Algengasta verðið á dísilolíu kostar hinsvegar 112 kr.

Algengasta verðið á 95 oktana bensíni hjá stöðvum ÓB er 111,20 kr., að því er fram kemur á vef Olís.

Hjá bensínstöðvum Egó kostar bensínlítrinn einnig 111,20 kr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert