Bandarísk blaðakona gagnrýnir hvalveiðistefnu Íslendinga

Þekkt bandarísk blaða- og útvarpskona að nafni Bonnie Erbe gagnrýnir harðlega stefnu Íslendinga í hvalveiðum, í blaðagrein sem nýlega birtist í bandarískum fjölmiðlum. Hún segir nýlega ákvörðun íslenskra stjórnvalda um að úthluta ekki heimildum til hvalveiða hafa verið tekna á röngum forsendum og segist óska þess að Íslendingar tækju jafn skynsamlegar ákvarðanir í veiðimálefnum og í umhverfismálum.

Erbe var nýlega á Íslandi og fór þá meðal annar í hvalaskoðunarferð, hún segir að nýlega hafi Íslendingar tekið skynsamlega ákvörðun, að hætta hvalveiðum í bili, sem þýði að veiðimenn geti ekki lengur „haldið áfram að slátra þessum þenkjandi, tilfinningaríku fjársjóðum, sem séu á barmi útrýmingar vegna græðgi mannsins”. Hún gagnrýnir hins vegar það að ástæðan sé sú að enginn markaður sé fyrir kjötið og að Íslendingar hafi með því að hefja hvalveiðar að nýju gengið gegn vilja flestra vestrænna þjóða og segir forsendur íslenskra stjórnvalda fyrir því að hætta veiðunum stjórnast af eigingirni.

Erbe er lögfræðingur að mennt en hefur stjórnað þáttum í útvarpi og sjónvarpi auk þess að starfa við blaðamennsku, hún stjórnaði m.a. þættinum Saturday Night on Mutual sem sendur var út á fjölda útvarpsstöðva og um milljón manna hlustuðu á þegar hann naut hvað mestra vinsælda. Þá skrifar hún reglulega greinar fyrir Scripps Howard fréttaþjónustuna, sem selur efni í um 400 dagblöð víðsvegar um Bandaríkin.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert