Þjóðvegurinn í Kollafirði ruddur

Nokkurra tuga metra breið skriða féll í nótt á þjóðveg 1 í Kollafirði við Mógilsá. Rúta, sem var á leið fá Akranesi með um 60 farþega í flug á Keflavíkurflugvelli, lenti á skriðunni, ók upp á leðjubinginn og sat þar föst. Tveir farþeganna í rútunni meiddust en hvorugur þó alvarlega.

Að sögn lögreglunnar er ekki vitað til að áður hafi fallið skriða á veginn á þessum slóðum en talið er að vatnsveðrið í gær hafi valdið aurskriðunni og var lögreglan jafnframt með getgátur um að vatnsrör ofar í brekkunni gæti hafa stuðlað að skriðunni.

Lögregla hleypti bifreiðum í hollum í gegn um braut sem var í fyrstu rudd í gegnum aurskriðuna.

Búið er að fjarlægja rútuna með krana og verið er að ryðja veginn.

Konurnar voru sóttar af annarri rútu og náðu flugi sínu til Frankfurt í tæka tíð.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert