Rannsókn: Karlar eru málgefnari en konur

Samkvæmt niðurstöðum nýrrar athugunar á 149 rannsóknum á mörg þúsund manns á sú klisja, að konur séu málgefnara kynið, ekki við rök að styðjast. Þvert á móti tala karlar að meðaltali lítið eitt meira en konur, segir höfundur athugunarinnar.

Nýju niðurstöðurnar eru birtar í nóvemberhefti vísindatímaritsins Personality and Social Psychology Review. En höfundurinn, Campbell Leaper, sálfræðiprófessor við University of California, Santa Cruz, segir að í rauninni sé munurinn á málgefni kynjanna svo sáralítill að ekki sé rétt að tala um að annað sé málgefnara en hitt.

Munurinn á kynjunum hvað þetta varðar kemur þó í ljós á þann hátt, að þau eru misjafnlega málgefin eftir aðstæðum:

Karlar hafa almennt fremur tilhneigingu til „staðhæfinga,“ eins og vísindamenn orða það, þ.á. m. að gefa fyrirmæli, láta í ljósi skoðun eða andmæla einhverjum. Konur eru aftur á móti almennt hneigðari til „tengslatals,“ þ.á m. að veita einhverjum stuðning, taka kveðju og lýsa samþykki.

Leaper telur að munurinn á orðræðu kynjanna eigi rætur í félagsmótun, en ekki meðfæddum eiginleikum.

Athugun hans náði til rannsókna er gerðar voru á árunum 1960 til 2005, og segir hann að í ljós hafi komið að kynjabundinn munur á orðræðu hafi minnkað með árunum. Einkum sé það eftirtektarvert í „tengslatali,“ þar sem karlar séu að saxa á forskot kvenna.

„Það er að verða talið gott og gilt að karlar tjái sig meira,“ sagði Leaper.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert