SA: Ekki útilokað að rauða strikið haldi

"Mér þykir hækkunin ansi mikil," segir Ari Edwald, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, "og hún setur mjög mikið álag á markmiðið okkar í maí." Hann segist ekki telja útilokað að markmiðið náist, þ.e. að vísitalan fari ekki yfir 222,5 stig en hún er 221,8 stig nú. Hann segir að til þess að þetta náist verði allir að leggjast á eitt.

Ari segir lækkun matvöruverðs jákvætt en það skilar 0,2 prósentustiga lækkun inn í vísitöluna. Þá er neikvæð þróun verða í heilbrigðisþjónustunni. „Ég horfi líka á það að föt og skór eru að koma ansi bratt til baka með vísitöluáhrif upp á 0,3 prósentustig," segir Ari. Þá bendir hann á lið sem kallast Aðrar innfluttar vörur, en hann hækkar milli mánuði um 2,5% sem vegur 0,37 prósentustig til hækkunar á vísitölunni. „Þarna myndi ég telja að gengisstyrking krónunnar sé alls ekki að skila sér. Ég tel það vera afar brýnt að allir aðila, og ekki síður þeir minni heldur en þeir stærri, skynji sína ábyrgð í þessari mynd. Það er alveg ljóst að í þessari stöðu sem við erum í núna, má ekkert út af bera og það má bókstaflega ekkert hækka fram til maí svo markmiðið náist," segir Ari. Þá bendir hann á að það séu jákvæðar fréttir af þróun verðbólgunnar á undanförnum mánuðum þar sem hún fer ört minnkandi. Hann segir að það sem réttlæti það að horfa svona stíft á markmið ASÍ og SA, sé að verðbólgan sé nú á hröðu undanhaldi. Hann segir ennfremur að verðbólgan á fyrsta ársfjórðungs þessa árs, þó að við séum með svona háan janúar og hærri mars en við vorum að búast við, sé 4,3% á ársgrundvelli samanborið 9,4% verðbólgu í fyrra. „Það eru horfur á því miðað við þetta og spár Seðlabankans fyrir komandi mánuði að verðbólgan fyrir fyrri helming ársins verði, miðað við þetta, um 4%," segir Ari og bætir við að hann telji mjög líklegt að þær spár sem settar hafi verið fram um 3% verðbólgu fyrir árið í heild, geti gengið eftir ef ekki komi til neinna óskynsamlegra viðbragða við þróuninni núna þessa mánuði. Hann segir að til þess að „við klárum okkur af því að komast inn í það umhverfi, þá má bókstaflega ekkert út af bregða á næstu tveimur mánuðum," segir Ari. Hann segir að sú hækkun sem sjúkraþjálfarar virðist vera að taka sér sé gríðarlega mikil. Hann segir Samtök atvinnulífsins vera í sambandi við sína viðsemjendur og ríkisvaldið um stöðuna. Hann segist þó telja að það sé almennt viðfangsefni fyrir alla aðila í þjóðfélaginu að stuðla að því að markmiðið náist.
mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK