Íslensk erfðagreining segir upp 200 starfsmönnum

Íslensk erfðagreining hefur í morgun sagt upp 200 af 650 starfsmönnum og taka uppsagnirnar gildi þegar í stað. Í tilkynningu frá fyrirtækinu segir, að fyrirtækið muni nýta aukna tæknivæðingu við erfðafræðirannsóknir og verður því verulega dregið úr starfsfólki við þær. Þá kynnti deCODE, móðurfélag ÍE, í dag þriggja ára samstarfssamning sem gerður hefur verið við lyfjafyrirtækið Merck & Co., Inc. um rannsókn á erfðafræði offitu með það að markmiði að flýta uppgötvun nýrra lyfja gegn offitu. Samkvæmt tilkynningu frá Íslenskri erfðagreiningu kunna greiðslur til félagsins að nema allt að 90 milljónum dala, um 7,8 milljörðum króna, ef Merck tekst að þróa og markaðssetja fleiri en eina afurð sem byggir á samstarfinu.

Í tilkynningu Íslenskrar erfðagreiningar segir, að vegna endurskipulagningar á rekstrinum muni kostnaður falla á fyrirtækið á þriðja ársfjórðungi. En í kjölfarið, og vegna samningsins við Merck, muni hagnaður verða á rekstri fyrirtæksins fyrr en áður var gert ráð fyrir og stefnt sé að jákvæðu fjárstreymi frá rekstri strax á næsta ári.

Í tilkynningunni segir, að lögð hafi verið sérstök áhersla á það að undanförnu, að auka sjálfvirkni og framleiðni í grunnrannsóknum fyrirtækisins. Þar af leiðandi sé ekki búist við því að þessar aðgerðir minnki framleiðni fyrirtækisins svo miklu nemi. Þær muni hins vegar gera Íslenskri erfðagreiningu kleift að viðhalda sterkri lausafjárstöðu á meðan niðurstöður erfðafræðirannsókna fyrirtækisins verði nýttar til þróunar nýrra meðferðar- og greiningarúrræða.

Útilokað að sækja fjármagn til rannsókna á hlutafjármarkað
Í tilkynningunni segir Kári Stefánsson, forstjóri ÍE, að nú um stundir sé útilokað að sækja fjármagn til rannsókna og þróunar á hlutabréfamarkað. Það sé því nauðsynlegt að reka fyrirtækið algjörlega á þeim tekjum sem það hafi skapað sér til að geta síðar notið ávaxtanna af þróun nýrra afurða fyrir heilbrigðisgeirann. „Við teljum að með þessum aðgerðum muni það takast," segir Kári.

„Krafa markaðarins er að við náum jafnvægi í rekstri fyrr en áætlanir okkar hafa gengið út á. Við höfum kosið að verða við þessari kröfu og lítum í raun á hana sem tækifæri til að styrkja undirstöður fyrirtækisins. Uppsagnirnar munu flestar eiga sér stað innan þeirra deilda sem sjá um erfðarannsóknir. Áætlanir okkar ganga út á að auka enn á sjálfvirkni og hugbúnaðarþróun til að auka framleiðni í þessum grunnrannsóknum og að þetta muni hafa lítil áhrif á afköst okkar í meingenaleitinni. Við reiknum líka með því að ná fleiri mikilvægum samstarfssamningum á næstunni, í líkingu við samninginn við Merck sem við kynntum í dag, sem munu skila okkur umtalsverðum og vaxandi rekstrartekjum,", segir Kári ennfremur.

Umtalsverðir fjármunir til rannsókna
Í samningnum við Merck er kveðið á um að deCODE fái umtalsverða fjármuni til rannsókna, aðgang að tækni og þjónustu, áfangagreiðslur þegar ákveðnum áföngum í þróun lyfja er náð, svo og hlutdeild í tekjum af sölu nýrra lyfja.

Í tilkynningu ÍE segir, að fjórðungur fullorðinna og vaxandi fjöldi barna í Bandaríkjanna og Vestur-Evrópu sé of þungur samkvæmt læknisfræðilegri skilgreiningu. Offita sé mikilvægur áhættuþáttur í mörgum alvarlegum sjúkdómum, eins og hjartaáfalli, heilablóðfalli og sykursýki. Mikil þörf sé á nýjum meðferðarúrræðum til að berjast gegn offitu sem læknisfræðilegu vandamáli. Breyting á matarræði og aukin hreyfing séu helstu úrræðin sem notuð eru gegn offitu í dag, auk þess sem notuð séu lyf sem minnka matarlyst. Það sé hins vegar einnig þekkt að erfðaþættir gegni hlutverki í þeim líffræðilegu ferlum sem liggi að baki sjúkdómnum. Fyrirtækin hyggjast nýta þau tækifæri sem háþróaðar erfðafræðirannsóknir þeirra veita til að uppgötva nýjar leiðir til að berjast gegn orsökum offitu, en ekki bara einkennum hennar.

Íslensk erfðagreining hefur þegar kortlagt nokkra mikilvæga erfðavísa sem tengjast offitu og safnað nákvæmum heilsufarslegum og erfðafræðilegum gögnum um yfir 10.000 þátttakendur í rannsóknum á sjúkdómum sem henni tengjast. Aukin áhersla verður nú lögð á þessar rannsóknir auk þess sem Íslensk erfðagreining leggur til samstarfsins Lífupplýsingakerfi sitt, sem er safn hugbúnaðar og gagna úr erfðafræðirannsóknum Íslenskrar erfðagreiningar og verður notað til að kanna hvort að þau lyfjamörk sem Merck hefur uppgötvað með rannsóknum á virkni erfðavísa og tilraunadýrum, tengist offitu í mönnum. Þannig gefst tækifæri á að forgangsraða frekari rannsóknum á lyfjamörkum Merck. Fyrirtækin hyggjast einnig hefja umfangsmiklar erfðafræðirannsóknir á offitu sem byggja á mælingum á virkni erfðavísa í vefsýnum.

mbl.is
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK
Fleira áhugavert
  ISK
  USD
  EUR
  GBP
  CAD
  DKK
  NOK
  SEK