35 ára gamall maður grunaður um að hafa framið morð á Klapparstíg

Lögreglan var með viðbúnað á Klapparstíg vegna morðsins í gærkvöldi.
Lögreglan var með viðbúnað á Klapparstíg vegna morðsins í gærkvöldi. mbl.is/Júlíus

35 ára gamall maður, sem er grunaður um að hafa myrt 65 ára gamlan mann í íbúð á Klapparstíg í Reykjavík í gærkvöldi, hefur verið yfirheyrður af lögreglu í morgun. Ákvörðun um gæsluvarðhald yfir manninum verður tekin í dag.

Lögreglunni barst tilkynning um að maður væri slasaður í kjölfar árásar í húsi við Klapparstíg um tíuleytið í gærkvöldi. Maðurinn var með meðvitund eftir árásina og gat gert vart við sig hjá nágrönnum sem hringdu strax á lögreglu og sjúkralið. Þegar sjúkraflutningamenn og lögreglan kom á staðinn kom í ljós að maðurinn hafði orðið fyrir hnífstungu, en árásarmaðurinn var farinn af vettvangi. Maðurinn skýrði lögreglumönnum frá því sem gerst hafði, en hann var alvarlega særður í kjölfar árásarinnar. Hann var fluttur á slysadeild, en var látinn þegar þangað var komið, samkvæmt upplýsingum lögreglu.

Lögreglan hafði yfir höndum upplýsingar um hugsanlegan árásarmann og víðtæk leit hófst í kjölfarið. Sá sem er talinn hafa framið verknaðinn fannst um ellefuleytið í gærkvöldi, talsvert frá þeim stað þar sem atburðurinn gerðist, að sögn lögreglu.

Hörður Jóhannesson, yfirlögregluþjónn hjá lögreglunni í Reykjavík, segir að enn sé unnið við rannsókn á vettvangi. Þá hafa staðið yfir yfirheyrslur yfir manninum, en hann er sagður einn til frásagnar um það sem gerðist. Hörður vildi ekki segja til um hvort að hnífur, sem er talinn hafa verið notaður, hafi fundist. Ákvörðun um gæsluvarðhald yfir þeim sem er grunaður um verknaðinn verður tekin í dag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert