Óttast að vegurinn um Fagradag hafi orðið fyrir skemmdum

Unnið er að hreinsun vegarins um Fagradal en tvær aurskriður féllu á hann í morgun. Hluti vegarins hefur verið hreinsaður, þar sem fyrri skriðan féll í morgun, en óttast er að vegurinn hafi orðið fyrir skemmdum þar sem fyrri skriðan féll. Að sögn Guðmundar Þorsteinssonar hjá Vegagerðinni á Reyðarfirði er stöku bílum hleypt í gegn þó svo að vegurinn hafi ekki verið formlega opnaður.

Um 100 m breið aurskriða féll á veginn um Fagradal í morgun og lokaði honum á kafla rétt hjá afleggjaranum í Mjóafjörð. Undir hádegi féll svo önnur minni skriða á veginn nokkru neðar. Þá er vegurinn til Mjóafjarðar aðeins fær jeppum vegna vatnsskemmda.

Að sögn Guðmundar er búið að fara í gegnum stærri skriðuna á neðri kantinum en óttast er að skemmdir hafi orðið á efri kantinum. Talið er að grafið hafi undan veginum á efri kantinum þar sem vinnuvél fór þar á kaf.

Guðmundur segist reikna með því að vegurinn verði opnaður fljótlega nema því aðeins að í ljós komi að þörf sé á stærri aðgerðum. Verði það raunin mun það reynast erfitt í framkvæmd þar sem úrhellisrigning er á svæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert