Flugleiðavél lenti í Baltimore vegna bilunar

Flugleiðaþotu, á leið frá Orlando í Bandaríkjunum til Keflavíkur, var snúið til Baltimore í gærkvöldi vegna bilunar í hraðamæli vélarinnar en bilunin varð til þess að vélin lækkaði flugið um 4000 fet á skömmum tíma.

Samkvæmt upplýsingum Flugleiða lagði vélin, sem er af gerðinni Boeing 757, af stað frá Orlando klukkan 23.00 að íslenskum tíma en eftir um það bil einnar og hálfrar klukkustundar flug varð truflana vart í hraðamælum vélarinnar. Flugstjóri vélarinnar tók þá ákvörðun um að snúa vélinni í Baltimore, sem var næsti flugvöllur, og var vélinni lent þar um hálfri klukkustund síðar eða um klukkan 01.00 að íslenskum tíma. Við skoðun í Baltimore kom í ljós að bilunin tengdist loftinntaki fyrir hraðamæli sem liggur utan á skrokki vélarinnar. Búið er að gera við bilunina og reynslufljúga vélinni án farþega og verður henni flogið til Íslands í kvöld. Farþegum vélarinnar var komið fyrir á hótelum í borginni þar sem þeim var m.a. boðið upp á áfallahjálp en 191 farþegi var um borð í vélinni. Þessi töf olli röskun á flugáætlun Flugleiða og varð til þess að flug til og frá Amsterdam var fellt niður í dag.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert