Viðhaldsfyrirtæki sem keypti hreyfil TF-GTI fleygði honum

Hreyfillinn úr flugvélinni TF-GTI, sem fórst á Skerjafirði fyrir rúmum tveimur árum, var í mars í fyrra selt bandarísku fyrirtæki í Texas sem sérhæfir sig í viðhaldi og endurbyggingu mótora sömu tegundar, að sögn Hilmars Foss, flugmanns, sem segir fyrirtækið hafa tjáð sér að mótorinn hafi reynst úrbræddur og ónothæfur.

Hilmar sagði við Fréttavef mbl.is að staðhæft sé í upplýsingum frá fyrirtækinu, sem keypti hreyfilinn af Ísleifi Ottesen, að hann hafi verið úrbræddur og ekki snúist. Fékk það hreyfilinn afhentan í El Paso í Texas 22. mars í fyrra, en hann hafi verið sendur héðan í gámi til Bandaríkjanna í lok janúar eða byrjun febrúar 2001 ásamt sundurtekinni flugvél Ísleifs, TF-GTR, sem magalenti á Reykjavíkurflugvelli.

Hilmar segir að kaupandinn segi jafnframt að þegar í ljós kom að áföst upplýsingaplata á mótornum hafi reynst vera af öðrum mótor, og það frábrugðnum, hafi í raun ekkert verið vitað um smíði og sögu mótorsins. Hann hafi því ekki verið nothæfur sem flughreyfill lengur. „Þeir héldu sig vera að kaupa epli en fengu í raun appelsínu," segir Hilmar Foss og bætir við að sveifarásnum hafi verið hent en aðra hluti af honum hafi verið hægt að nota með lögmætum hætti.

Hilmar, sem aðstoðað hefur aðstandendur þeirra sem fórust með flugvélinni, segir að raðnúmer á kveikjum sem fylgdu mótornum komi heim og saman við raðnúmer af mótornum sem skráð séu í skýrslu Rannsóknarnefndar flugslysa um Skerjafjarðarslysið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert