Predikun biskups Íslands á Þingvöllum

Sigurður Sigurðarson vígslubiskup í Skálholti, Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands og …
Sigurður Sigurðarson vígslubiskup í Skálholti, Karl Sigurbjörnsson biskup Íslands og Bolli Gústafsson vígslubiskup á Hólum þjónuðu fyrir altari í dag. mbl.is/Þorkell

Hér á eftir fer predikun Karls Sigurbjörnssonar biskups Íslands í hátíðarmessu á Kristnihátíð á Þingvöllum:

Ó, Guð vors lands, ó, lands vors Guð, vér lofum þitt heilaga, heilaga nafn. Amen Gleðilega hátíð- kristnihátíð, kristna þjóð! Óviðjafnanleg undrasmíð er þessi staður!. Hamraveggirnar bröttu, Öxará með fossnið sinn, og gjárnar djúpu og vötnin, tæru, bláu, og fjallahringurinn tignarfríður. Enginn staður á landi hér segir eins skýrt hvað Ísland er, álfu vorrar yngsta land. Þar sem andstæður náttúruaflanna mætast, og takast á, þar sem miðatlantshafssprungan kemur svo að segja upp á yfirborðið, austrið og vestrið mætast, Evrópa og Ameríka rekast saman og sameinast. Eitthvað hefur gengið á þegar þessi undur mynduðust, þegar jörðin sprakk, gjárnar lukust upp, hraunin runnu. Umhverfið hér talar sínu máli og segir sína sögu. Og hvergi sjáum við eins glögglega hvað það er sem gerir Íslendinga að þjóð. Við eigum sameiginlega reynslu, eina sögu, og á þeim grunni sameiginlega framtíðarsýn. Hér á þessu átakasvæði sköpunarkraftanna, verkstæði skaparans, stofnuðu Íslendingar þjóðríki sitt og réðu ráðum sínum um aldir. Lög og réttur mótar mannlegt samfélag, er ætlað að efla lífið, bæta, verja, græða og halda eyðingaröflum í skefjum. Þannig er það þátttaka í verki skaparans. Það þarf þó meira til en lögin ein. Það þarf líka sið og uppeldi til að þjóð lifi af sem þjóð, svo lífsþrótturinn eflist og lífið dafni í átökum daganna, og þjóðarvefurinn treystist og haldi. Svo gerðist það sem við minnumst nú að þjóðin okkar játaðist Kristi. Fólk nefndi hann þá Hvíta Krist, vegna þess að birta fylgdi áhrifum hans, ný sólarsýn, ný von. Aflið æðsta í alheimi er eins og hann. Fegurð lífsins er blik af honum. Sólin sjálf er skuggi hans. Lífið í limum okkar, blóðið í æðum okkar, hugsun hjartans og orðin á vörum okkar eru ástgjafir hans. Guð vors lands, hann er ekki bak við skýin háu, hann hefur birt sjálfan sig í Jesú Kristi. Hann er hér á jörðu, hjá okkur. Hann er hér sem samferðarmaður á vegi þínum, sem sest hjá þér og deilir með þér brauði sínu. Og segir: Tilgangur lífsins er kærleikur minn. Í brostnum heimi, þar sem sprungusvæðin liggja svo víða undir sverði mannlífsins, og þarf svo lítið til að það byltist og bresti allt saman sem átti að bera og vera heilt. Þá ríður á að vefurinn haldi, samstaðan, samkenndin, umhyggjan, trúin og vonin og kærleikurinn. Þegar áföllin verða í lífinu finnum við að Ísland á eina sál og huga. Þá vaknar innra með okkur vitund þess hve sérhver einstaklingur er ómetanlega mikils virði. Af hvaða rót er þessi vitund runnin, hvað hefur nært og hlúð að þessari sálarsýn? Það er rödd Guðs. Orð og andi hans er Kristur. Kristin trú og siður hefur myndað uppistöðuna í þjóðarvefnum íslenska um aldir. Í þeim skilningi erum við kristin þjóð. Okkur er ef til vill orða vant og eigum erfitt með að lýsa skoðun okkar, enda margvíslegar og oft óskilgreindar, en bænin helga er þarna til staðar, Faðir vor, og viðbrögð hjartans þegar á reynir og í nauðir rekur. Þá á Ísland eina sál og trú sem er tjáð í verki, í anda gullnu reglu Krists og kærleiksboða hans. Á Kristnihátíð eigum við hér áningarstað á helgum velli, kristin þjóð. Leiðir okkar eru margvíslegar, ævivegir og atvik lífs. Skoðanir skiptar um eitt og annað, við erum ekki endilega sammála um túlkun þeirrar sögu og atburða, sem hér er minnst, enda er það ámóta margbrotið og náttúra Þingvalla, geymir dimm og ógnvekjandi djúp og tæra fleti sem spegla sjálfan himininn. Við eigum jafnvel athvarf í mismunandi kirkjum og trúsöfnuðum þótt við játum sama Krist og biðjum í nafni hans. Fjölbreytni eykst í menningu og trúarháttum, og fjölhyggjusamfélagið sækir á. Við skulum ekki óttast það! En látum það ekki verða til þess að við glötum sjálfsmynd okkar og týnum sál okkar í þeirri gjörningaþoku þar sem flest er álitið afstætt og fátt heilagt. Hlynnum að samstöðunni, og gleymum ekki umhyggjunni, vegna þess að ekki eru allir jafn sterkir! Gleymum ekki þeim sem halloka fara, þeim sem Kristur kallaði sín minnstu systkin! Virðum hvort annað, þótt við séum ósammála, virðum mismunandi skoðanir og leitum einingar, samstöðu og friðar í anda þess arfs sem varðað hefur veg þjóðar frá kristnitöku. Með því erum við að færast Kristi nær og kærleika hans. Kristur er í nánd og að verki með miskunn sína, mildi, fyrirgefningu, náð. Hann á sér ýmis verkfæri og votta, og það ekki aðeins innan veggja helgidómanna. Þú vaknaðir barn við vondan draum og styrkir armar umvöfðu þig og rödd sem sefaði og sagði: Vertu ekki hræddur, vertu ekki hrædd, ég er hjá þér! Sú rödd, jafnvel titrandi og skelkuð sjálf, sagði satt, vegna þess að hún var bergmál annarrar raddar, annars orðs, þess máttar sem heldur lífi og heill í hendi sér, þrátt fyrir allt sem skelfur og brestur og yfir dynur. Hún vitnaði um krossfestan og upprisinn frelsara sem er máttugri en ógnaröflin, og útbreiðir arma sína til að faðma veröld alla, stóra og smáa, vonda og góða sömu náð og blessun. Þessir föðurarmar, þessi móðurmund sem hlúði að þér, var faðmur hans, þessi huggun, þessi bænarorð og hönd sem signdi rúmið. Láttu ekki barnið þitt fara á mis við það, né heldur sál þína vaxa frá því, henda, brjóta eða týna! Vegna þess í því er Kristur að verki að lækna þetta líf og heim. Kærleikur hans, umhyggja, mildi og náð þarfnast hugar þíns og handa til að aðrir njóti blessunar hans. Á Kristnihátíð erum við ekki einungis að minnast atburðar sem einu sinni var, endur fyrir löngu. Við erum að setja okkur fyrir sjónir hver við erum og á hvaða grunni við stöndum sem einstaklingar, og sem þjóð nú í dag. Við eigum hér áningarstað á ferð okkar sem þjóð, með sameiginlega reynslu, sameiginlega minningu. Hér býður Kristur til máltíðar, brauðs og víns til að styrkja lífsþróttinn og samstöðuna og traust okkar til návistar sinnar. Máltíð sem setur okkur fyrir sjónir heim og líf þar sem allir sitja við sama borð, læknað líf, heilan heim, þar sem hvert tár er þerrað af hvörmum og engin neyð og enginn skortur er framar til. Brauðið er hann sem gaf líf sitt heiminum til lífs. Og í því að neyta þessarar máltíðar þá ertu að segja með allri kirkju Krists, allra þjóða, allra alda, og það endurómar um himna og heima alla: Þú ert Kristur! Og hann segir við þig: Þú ert minn! Og þú færð að halda í þeirri vissu héðan til móts við framtíðina, og bera vitni um umhyggju hans og náð. Í þeirri bæn og von og trú að framtíðin er Krists, að hann verður Guð vors lands um ókomin ár og aldir. Við skulum öll rísa á fætur og játa þá trú sem við vorum skírð til og segja hvert með öðru: Ég trúi…..
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert