20 skilyrði sett fyrir Kárahnjúkavirkjun

Frá Kárahnjúkasvæðinu.
Frá Kárahnjúkasvæðinu.

Umhverfisráðherra setur 20 skilyrði fyrir Kárahnjúkavirkjun og eru þau helstu að Landsvirkjun er gert að falla frá framkvæmdum við Hafursárveitu, Laugarfellsveitu og Bessastaðaárveitu og Gilsárvötn. Þá er Landsvirkjun gert að falla frá framkvæmdum við Sultarrana- og Fellssárveitu.

Skilyrðin eru eftirfarandi: 1. Framkvæmdaraðila er gert að falla frá framkvæmdum við Hafursárveitu, Laugarfellsveitu og Bessastaðaárveitu og Gilsárvötn. Framkvæmdaraðila er heimilt að breyta hönnun aðrennslisganga frá Hálslóni að stöðvarhúsi í Fljótsdal til að vega upp á móti minni orkuvinnslugetu vegna þessa skilyrðis og skilyrðis nr. 2. 2. Framkvæmdaraðila er gert að falla frá framkvæmdum við Sultarrana- og Fellssárveitu. Jafnframt endurskoði framkvæmdaraðili fyrirkomulag á yfirfalli stíflu við Kelduá í þeim tilgangi að draga eins og kostur er úr þeim umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Framkvæmdaraðili skal í samráði við Ná ttúrufræðistofnun Íslands kanna gróður og fuglalíf í lónstæði fyrirhugaðs Kelduárlóns áður en framkvæmdir við annan áfanga virkjunarinnar hefjast. 3. Fyrirkomulagi á yfirfalli úr Hálslóni eins og það er staðsett og hannað við stíflu í Desjárdal er hafnað. Hönnun aðalstíflu við Hálslón skal breyta þannig að yfirfallsvatn úr lóninu verði leitt í Hafrahvammagljúfur. Breytt hönnun og fyrirkomulag stíflumannvirkja skal ekki leiða til meiri heildaráhrifa á umhverfi en sú hönnun og útfærsla sem framkvæmdaraðili fyrirhugar samkvæmt matsskýrslu, þ.e. kostur 2. Staðsetningu og gerð stíflumannvirkja verði ekki breytt meira en þörf krefur til að fullnægja ofangreindu skilyrði. 4. Aðgerðir framkvæmdaraðila til að minnka jarðvegsrof og áfok úr Hálslóni skulu miðast við að hvergi myndist áfoksgeirar meðfram jöðrum Hálslóns í hönnunarstormi með 50-100 ára endurkomutíma. Í samræmi við það skal framkvæmdaraðili vinna heildstæða áætlun sem sýnir nákvæma útfærslu aðgerða og mat á virkni þeirra. Aðgerðirnar skulu m.a. fela í sér eftirfarandi atriði:
a. Stjórnun vatnsborðsbreytinga í Hálslóni, þ.e. forgangsröðun við fyllingu lóna.
b. Uppsetningu og virkni verkfræðilegra rof- og áfoksvarna miðað við hönnunarstorm með 50-100 ára endurkomutíma.
c. Stjórnun og aðgerðir vegna stöðvunar á foksgeira, gróðurverndar og uppgræðslu á svæðum sem verða fyrir áhrifum.
d. Sívirkt eftirlit og mat á virkni mótvægisað gerðanna. 5. Framkvæmdaraðili skal tryggja að umfang og eðli rofs og annarrar röskunar gróðurs á áhrifasvæði virkjunarinnar utan Hálslóns verði ekki meira með tilkomu hennar að teknu tilliti til mótvægisaðgerða en það er áður en framkvæmdir hefjast. Í samræmi við það skal framkvæmdaraðili vinna áætlun um aðgerðir svo sem uppgræðslu- og landbótaaðgerðir á áhrifasvæði virkjunarinnar utan Hálslóns og viðmiðunarmörk fyrir rof og þá röskun sem áhrif framkvæmdarinnar miðast við. 6. Framkvæmdaraðili skal gera viðbragðs- og aðgerðaáætlun við neyðarástandi. Í áætluninni skal gera grein fyrir eftirfarandi atriðum:
a. helstu neyðaraðstæðum sem upp kunna koma
b. svæði, mannfjölda og verðmæti sem geta verið í hættu við slíkar aðstæður
c. aðgerðir til að bregðast við slíkum aðstæðum
d. aðgerðir til að vara við, vernda, stýra, rýma eða annars sem talið er nauðsynlegt til að vernda líf og verðmæti. 7. Ekki er fallist á fyrirhugað efnisnám í Hvannstóðsfjöllum. Framkvæmdaraðili skal tilgreina annan mögulegan efnistökustað t.d. í Lambafellstagli. Áður en framkvæmdir hefjast skal framkvæmdaraðili í samráði við Náttúruvernd ríkisins vinna nákvæma áætlun um námur, haugsvæði og vega- og slóðagerð og með hliðsjón af þeim breytingum sem felast í þessum úrskurði leitast við að lágmarka enn frekar umhverfisáhrif framkvæmdanna. Í áætluninni skal gerð grein fyrir staðsetningu, umfangi, fyrirkomulagi, nýtingu og frágangi efnistökustaða og haugsvæða og allra vega og vegslóða. Efnistöku- og notkunarstaðir og magn efnis skal tilgreint. 8. Framkvæmdaraðili skal lækka klapparhaftið ofan Lagarfljótsvirkjunar um 1 m áður en rekstur virkjunarinnar hefst. Framkvæmdaraðili skal hafa samráð við Náttúruvernd ríkisins og skipulagsyfirvöld um framkvæmdina. Verði ekki ráðist í síðari áfanga virkjunarinnar innan 10 ára frá lokum fyrri áfanga skal framkvæmdaraðili rýmka farveg Lagarfljóts við Straum. 9. Framkvæmdaraðili skal í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands standa fyrir vöktun á völdum fuglastofnum við Lagarfljót, á Úthéraði og á Héraðssandi á fyrstu 10 árum á starfstíma virkjunarinnar til að staðreyna að áhrif breytinga á vatnafari á lífríki sé innan þeirra marka sem gert er ráð fyrir í matsskýrslu. 10. Framkvæmdaraðili nýti yfirfallsvatn á skipulegan hátt á ferðamannatíma og leitist við að ná meðalrennsli í farveg Jökulsár í Fljótsdal og Kelduár í júlí og ágúst í góðum vatnsárum. Í lakari vatnsárum skal framkvæmdaraðili leggja áherslu á að hafa rennsli á ferðamannatíma í farvegi Jökulsár í Fljótsdal og síðan í Kelduá eftir því sem yfirfallsvatn dugar til. 11. Áður en fyllt verður í Hálslón skal framkvæmdaraðili í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands ljúka rannsóknum á þeim setlögum sem mynduðust í fornu jökullóni sunnan Kárahnjúka. Framkvæmdaraðili skal jafnframt láta rannsaka og kortleggja öskulög í jarðvegi sem hverfa munu í Hálslón beggja vegna Jökulsár sunnan Kárahnjúka og á Fljótsdalsheiði. Niðurstöður rannsóknanna skulu birtar innan tveggja ára frá því að vatni er hleypt í Hálslón. 12. Framkvæmdaraðili skal í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands sjá til þess að jarðhitasvæðið við Sauðárfoss ásamt hrúðurbreiðunum verði rannsakað. Niðurstöður rannsóknanna skulu birtar innan tveggja ára frá því að vatni er hleypt í Hálslón. 13. Framkvæmdaraðili skal í samráði við Náttúrufræðistofnun Íslands sjá til þess að flikrubergið í gljúfri Jökulsár verði rannsakað. Niðurstöður rannsóknanna skulu birtar innan tveggja ára frá því að vatni er hleypt í Hálslón. 14. Framkvæmdaraðili skal tryggja að göng séu vöktuð meðan á byggingu þeirra stendur til að finna og stöðva leka um sprungur, sem leiða umtalsvert vatn. Slíkar sprungur skal einangra til að koma í veg fyrir lekann, svo framkvæmdirnar valdi ekki marktækum áhrifum á núverandi grunnvatnsstöðu. 15. Framkvæmdaraðili skal í samráði við Hafrannsóknastofnun láta vakta á fyrstu 10 árum starfstíma virkjunarinnar dæmigerð botndýrasamfélög í Héraðsflóa. 16. Hönnun allra stærri verkfræðilegra framkvæmda, svo sem rofvarna á strönd Hálslóns, skal miða að því að lágmarka sjónræn áhrif á víðerni. 17. Framkvæmdaraðili skal í samráði við Náttúrustofu Austurlands standa að nauðsynlegri við bótarvöktun hreindýra á fyrstu 10 árum á starfstíma virkjunarinnar til að staðreyna að áhrif virkjunarinnar á hreindýrastofninn sé ekki meiri en gert er ráð fyrir í matsskýrslu. 18. Framkvæmdaraðili skal sjá til þess að farvegur Jökulsár í Fljótsdal verði ávallt skolaður í kjölfar aurskolunar með rennsli sem sé a.m.k. jafnt því hámarksrennsli sem notað var við útskolun aursins. Útskolunin skal standa yfir í a.m.k. 4 klst. 19. Framkvæmdaraðili skal í samvinnu við Minjavörslu Austurlands gera áætlun um reglulega vöktun þeirra fornminja sem eru í hættu og tilkynna Fornleifavernd ríkisins ef hætta er talin á að fornminjar muni raskast vegna framkvæmdanna. 20. Framkvæmdaraðili skal sjá til þess að bergganginum, Tröllkonustíg, í Valþjófsstaðarfjalli verði hlíft við raski þannig að ásýnd hans verði ekki breytt. Úrskurður umhverfisráðherra í heild
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert