Stefanía Óskarsdóttir gefur kost á sér í prófkjöri

Stefanía Óskarsdóttir, varaþingmaður og fráfarandi formaður Hvatar, gefur kost á sér í í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík vegna alþingiskosninganna næsta vor sem fram fer 22. og 23. nóvember næstkomandi. Hún sækist eftir sjötta sæti.

Stuðningsmenn Stefaníu hafa opnað kosningaskrifstofu að Laugarásvegi 1. Hún er opin frá klukkan 14-22 virka daga og frá klukkan 13-18 um helgar.

Stefanía er fertug að aldri, doktor í stjórnmálafræði frá Purdue-háskóla í Bandaríkjunum og hefur starfað sem kennari við Félagsvísindadeild Háskóla Íslands. Á þessu kjörtímabili hefur hún nokkrum sinnum tekið sæti á alþingi sem varaþingmaður fyrir Sjálfstæðisflokkinn og hefur setið í flokksráði Sjálfstæðisflokksins frá 1999. Þá hefur hún meðal annars starfað sem verkefnisstjóri í forsætisráðuneyti og menntamálaráðuneyti á kjörtímabilinu og sem formaður nefndar á vegum forsætisráðuneytisins, sem rannsakar efnahagsleg völd í þjóðfélaginu með tilliti til kynferðis. Stefanía er gift Jóni Atla Benediktssyni, prófessor í rafmagns- og tölvuverkfræði við Háskóla Íslands.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert