Leifar landnámsbæjar fundnar í Bolungarvík?

Ragnar Edvardsson fornleifafræðingur, sem vinnur að uppgrefti við Tröð í Bolungarvík, segir mjög djúp og mikil mannvistarlög hafa komið í ljós, hin elstu þeirra líklega frá upphafi byggðar í Bolungarvík. Uppgröfturinn er unninn á vegum Náttúrustofu Vestfjarða í Bolungarvík. Verið er að grafa könnunarskurði til að ganga úr skugga um tilvist fornleifa á svæðinu áður en fyrirhugaðar framkvæmdir við snjóflóðavarnir hefjast þar. Þegar hafa verið teknir fjórir skurðir.

„Við vitum ekki ennþá hvað þetta er en hérna stóð bærinn Tröð sem getið í heimildum frá því um 1200. Hérna eru gömul mannvistarlög. Ég get ekki slegið neinu föstu um aldur þeirra fyrr en aldursgreining hefur farið fram en þau elstu eru að öllum líkindum frá upphafi byggðar í Bolungarvík“, segir Ragnar við fréttavef Bæjarins besta.

Ýmiskonar munir hafa fundist og segir Ragnar ummerki um allmargar byggingar vera hér og hvar í túninu. „Við erum komnir í eina byggingu sem er líklega frá því fyrir 1400 og það spretta upp fornminjar hérna. Þetta eru þessir hefðbundnu munir, hnífsblöð, hnappar og fleira, en það er augljóslegt að hér eru merkilegir hlutir að gerast“, segir Ragnar.

Bæjarins besta

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert