Tólf hundruð fermetra heilsulind rís við Laugarvatn

Áætlaður er að kostnaður við uppbyggingu 1200 fermetra heilsulindar á bökkum Laugarvatns kosti yfir 300 milljónir kr. Bláa lónið kemur að faglegri uppbyggingu og rekstri heilsulindarinnar. Búist er við að gestum svæðisins fjölgi mjög, að þeir verði um 90 þúsund á ári þegar allt verður tilbúið en nú koma um 25 þúsund gestir í gufubaðið og sundlaugina á Laugarvatni.

Hollvinasamtök gufubaðs og smíðahúss á Laugarvatni kynntu áform sín á fundi í sal Menntaskólans á Laugarvatni síðastliðinn laugardag. Þar kom fram að í heilsulindinni verða gufuböð, ylströnd, heitir pottar, buslpottar og sundlaug, auk aðstöðu fyrir nudd og slökun.

Jafnframt kom fram að unnið er að miklum breytingum á deiliskipulagi byggðarinnar á Laugarvatni til að tryggja umferðaröryggi og flæði umferðar að íþróttasvæðum og um íbúðarbyggðina. Er í þessu sambandi verið að skipuleggja allan vatnsbakkann með hverunum þremur og norður fyrir Vígðulaug í einni heild með samspil náttúru, fornminja og sögu staðarins í huga.

Hollvinasamtökin hafa gert leigusamning við menntamálaráðherra um afnot af landinu til 30 ára. Þórtak ehf. mun reisa bygginguna og sjá um fjármögnun hennar.

Stórhuga menn

Á fundinum lýsti menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, því yfir að hér væri um að ræða "stórhuga menn með alvöruhugmyndir sem styrkja myndu ferðaþjónustuna á svæðinu í heild". Hún sagði mikilvægt að ýta undir framtakssemi sem þessa og ekki mætti láta gamla og úrelta eignaskiptingu hamla vexti staðarins. Í því sambandi nefndi hún hitaréttindi sveitarfélagsins og landskiptingu á Laugarvatni.

Ólafur Proppe, rektor KHÍ, rakti aðkomu skólans að uppbyggingu á Laugarvatni eftir að Íþróttakennaraskóli Íslands sameinaðist KHÍ 1998. Lýsti hann fullum stuðningi skólans við þessar skipulagsbreytingar og uppbyggingaráform. Hann sagði einnig frá því að námsbrautin á Laugarvatni væri stöðugt að taka meira mið af heilsurækt fólks á öllum aldri auk íþróttakennslu í skólum.

Guðni Ágústsson landbúnaðarráðherra ávarpaði fundinn og gladdist yfir því að nú hillti undir að Laugarvatn losnaði undan fjötrum ríkisins. "Þetta er eins og í ævintýri þar sem prinsessan fallega kemur og heggur á rembihnútinn og álögin losna."

Grímur Sæmundsen, framkvæmdastjóri Bláa lónsins, lýsti því að í þeirra huga væri allt til staðar á Laugarvatni sem til þyrfti til að reisa góða heilsulind. Markmiðið væri að markaðssetja Ísland sem heilsuland.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert