Ker stefnir ríkinu: Hafi ekki haft neinn ávinning af samráðinu

Dómsmál Kers ehf., eigenda Olíufélagsins, gegn íslenska ríkinu og samkeppnisyfirvöldum, vegna úrskurðar áfrýjunarnefndar samkeppnismála, frá því í janúar sl., um samráð olíufélaganna, verður þingfest í héraðsdómi Reykjavíkur í dag. Félagið krefst þess að úrskurður áfrýjunarnefndarinnar verði í heild sinni felldur úr gildi. Til vara er krafist að sektirnar, sem félaginu bar að greiða, verði felldar niður eða stórlega lækkaðar.

Samkvæmt úrskurði áfrýjunarnefndar samkeppnismála, sem kveðinn var upp 31. janúar sl., bar Keri að greiða 495 milljónir króna vegna ólögmæts samráðs olíufélaganna. Olís bar að greiða 560 milljónir og Skeljungi 450 milljónir.

Kristinn Hallgrímsson, lögmaður Kers, segir að ný gögn verði lögð fyrir dóminn sem sýni að félagið hafi ekki haft neinn fjárhagslegan ávinning af samráðinu. Hann segir að óháð endurskoðunarfélag hafi verið fengið til að fara yfir þá aðferðafræði og útreikninga sem samkeppnisyfirvöld beittu til að reikna út meintan ólögmætan ávinning félaganna. "Samkvæmt þeim gögnum stendur ekki steinn yfir steini í þeim útreikningum," segir hann. Jafnframt verður farið fram á, segir hann, að dómkvaddir matsmenn fari yfir útreikningana.

Málflutningur eftir áramót

Samkeppnisyfirvöld hafa tíma fram á haust til að skila greinargerð í málinu. Kristinn segir því viðbúið að málflutningur fari ekki fram fyrr en eftir áramót. Hann segir að staðfesti dómstólar niðurstöður Kers, um að félagið hafi ekki haft neinn ávinning af samráðinu, muni það gagnast félaginu í skaðabótamálum, sem viðskiptavinir þess muni hugsanlega höfða á hendur því.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert