Hópur sígauna sem vildi sækja hér um hæli kominn til Danmerkur

Ferjan Norræna.
Ferjan Norræna.

Hópur sígauna frá Rúmeníu, sem óskaði eftir hæli hér á landi í síðustu viku en var synjað, er nú kominn til Danmerkur eftir nokkuð viðburðaríka ferð með ferjunni Norrænu. M.a. reyndi fólkið að flýja frá borði á Hjaltlandseyjum en lögreglu tókst að koma í veg fyrir það.

Um var að ræða 21 Rúmena, sem fór með Norrænu frá Björgvin til Seyðisfjarðar og óskaði þar eftir hæli. Íslensk stjórnvöld höfnuðu því og var fólkið sent með Norrænu til baka samdægurs.

Að sögn færeyska fréttablaðsins Sosialurin var ekki pláss fyrir fólkið í klefum í ferjunni og svaf það því á göngum eða úti á þilfari. Þegar ferjan kom til Þórshafnar fengu Rúmenarnir ekki að fara í land. Norræna hélt næst til Hjaltslandseyja en þegar þangað var komið á föstudagskvöld reyndi fólkið að komast í land en lögregla þar kom í veg fyrir það. Brottför ferjunnar frá Hjaltlandi tafðist nokkuð en hún kom síðan í gærkvöldi til Hanstholm í Danmörku þar sem lögregla tók á móti Rúmenunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert