Árni Johnsen biður Hreim afsökunar

Árni Johnsen stýrir brekkusöng á Þjóðhátíðinni sl. sunnudagskvöld.
Árni Johnsen stýrir brekkusöng á Þjóðhátíðinni sl. sunnudagskvöld. mbl.is/GSH

Árni Johnsen hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna atviks á stóra sviðinu á Þjóðhátíðinni í Vestmannaeyjum sl. sunnudagskvöld þegar slá í brýnu milli hans og Hreims Heimissonar söngvara. Hreimur segist taka afsökunarbeiðnina til greina en segir að þeim beri á milli um hvað raunverulega gerðist.

Yfirlýsing Árna er svohljóðandi:

„Vegna fréttaflutnings af atviki á Brekkusviði á Þjóðhátíð í Herjólfsdal í Eyjum í lok vel heppnaðrar Þjóðhátíðar og brekkusöngs s l. sunnudagskvöld, vill undirritaður gefa eftirfarandi yfirlýsingu:

Vegna misskilnings á milli fulltrúa í Þjóðhátíðarnefnd og kynnis sem jafnframt er dagskrárstjóri ásamt Þjóðhátíðarnefnd og stjórnandi Brekkusöngs, var kynni ekki kunnugt um að hópur söngvara úr dagskrá Þjóðhátíðarinnar, ætti að syngja kveðjulag að loknum brekkusöng, en venjan er að þegar brekkusöng lýkur með íslenska þjóðsöngnum, standi allir þjóðhátíðargestir upp í brekkunni eins og vera ber og síðan er kveikt á blysum um hálfan Herjólfsdal og flugeldum skotið upp að því loknu.

Lagið sem hópurinn söng kom hins vegar strax á eftir brekkublysunum eða um tveimur mínútum eftir að brekkusöng lauk. Þá var enn verið að slökkva í varðeldinum og hreinsa leyfar varðeldsins af danspalli Brekkusviðsins og fullbúinn slökkviliðsbíll var á danspallinum beint fyrir framan sviðið og skyggði á það. Þá snaraði kynnir sér upp á svið og ætlaði að hliðra til þessu atriði sem var ekki á dagskrá hans sem kynnis, en þetta taldi hann nauðsynlegt af öryggisástæðum, því venjan er sú að um leið og dagskrá byrjar aftur á upplýstu Brekkusviðinu eftir brekkusöng með sviðið myrkvað, þá flykkist unga fólkið á danspallinn og ef slíkt hefði hent með pallinn óhreinsaðan og slökkviliðsbílinn við sviðið hefði mikil hætta getað skapast. Þegar kynnir þreif síðan í hita leiksins í þröng á sviðinu til hljóðnema af þessum sökum að loknum flutningi kveðjulags rakst hann slysalega á Hreim söngvara sem kom að hljóðnemanum í sömu mund. Það var því síður en svo ásetningur að bregða Hreimi söngvara.

Þjóðhátíðarkynni er ljúft að biðja Hreim afsökunar á þessum óvænta árekstri og reyndar gerði hann það einnig á Brekkusviðinu þegar atvikið átti sér stað.

Dagskrá Þjóðhátíðar Vestmannaeyja er metnaðarfull og margslungin og stundum þarf að grípa skjótt í taumana á 10 þúsund manna hátíð, en þá er hætta á hnökrum sem alltaf hefur verið hægt að leiðrétta sem betur fer.

Undirritaður harmar að þetta atvik skyldi koma upp eins og skrattinn úr sauðaleggnum, en við félagar Hreimur Örn Heimisson söngvari erum sammála um að þetta mál sér úr heiminum í fullri sátt. Það hefur Hreimur staðfest eftir samtal mitt við hann um þetta bréf. Hittumst í Herjólfsdal að ári.“

Hreimur sagði í samtali við Eyjafréttir að hann taki afsökunarbeiðni Árna góða og gilda en hann segist ekki sammála honum um málsatvik. „Ef einhver hefur náð þessu á myndbandi þætti mér vænt um að fá að sjá það,“ sagði Hreimur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert