Páskahátíðin brandari Guðs

Karl Sigurbjörnsson
Karl Sigurbjörnsson mbl.is/Þorkell

Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, sagði í prédikun í páskamessu í Dómkirkjunni í dag, að páskarnir væru alltaf og ævinlega að vissu leyti brandari Guðs, sem hlæi að hiki og efa og hálfvelgju kirkju sem fremur vilji trúa á föstudaginn langa en páska og sem fremur vilji sleikja sár uppgjafar og vonleysis en syngja sigursöngva og þakkargjörðar.

Karl sagði að gleði væri grunnstef kristinnar trúar. „Fagnaðarerindi, gleðiboðskap, kallar Jesús boðskap sinn – einn allra trúarbragðahöfunda gefur hann boðskap sínum nafn sem bendir til slíkrar áttar. „Þetta hef ég talað til yðar til þess að fögnuður minn sé hjá yður og fögnuður yðar sé fullkominn,” segir hann, og: „Farið og prédikið gleðiboðskapinn allri skepnu…” Hægt er að nálgast öll meginstef boðskapar hans með þetta orð að leiðarljósi: Gleði. Við erum sem kirkja kölluð til að tjá þá gleði, bera fram þann fögnuð sem er rauði þráðurinn og uppistaðan í kristinni trú.

Til forna var talað um „páskahláturinn”. Á páskadagsmorgni var að sögn farið með gamanmál í kirkjunni og hlegið dátt, hlegið og kæst yfir því sem er ótrúlegast alls: Að hinn krossfesti Kristur er upprisinn, lífið hefur sigrað dauðann. Hann dó vegna vorra synda, hann dó fyrir þig, til fyrirgefningar syndanna. Guð sneri illu til góðs, dauða til lífs. Já, Guð lék á djöfulinn, felldi hann á eigin bragði. Það er hið hlægilegasta af öllu hlægilegu, ótrúlegasta af öllu ótrúlegu, gleðilegast allra gleðiefna. Að vissu leyti eru páskarnir því alltaf og ævinlega brandari Guðs sem hlær að hiki og efa og hálfvelgju kirkju sem fremur vill trúa á föstudaginn langa en páska, sem fremur vill sleikja sár uppgjafar og vonleysis en syngja sigursöngva og þakkargjörðar," sagði Karl.

Þá sagði hann, að þegar deilurnar um skopmyndirnar af Múhameð spámanni voru í algleymi hafi því verið haldið fram að æsingurinn vegna myndanna opinberaði húmorsleysi og heiftarhug múslima. „Mér finnst hann opinbera umfram allt hve tortryggni, vænisýki á báða bóga, hroki og hleypidómar grafa um sig. Og hve auðvelt það er allrahanda ofstopamönnum að virkja það til óhæfuverka," sagði Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands.

Prédikun biskups Íslands

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert