Fá að kaupa hlut í REI fyrir 10 milljónir

Fjórir starfsmenn Reykjavik Energy Invest fá að kaupa hlutabréf í félaginu fyrir tíu miljónir hver í félaginu á genginu 2,77. Þeir eignast því 3,6 miljónir að nafnvirði í félaginu. Sex aðrir fá að kaupa fyrir 10 milljónir hver á genginu 1,3 og þeir eignast því 7,7 milljónir að nafnvirði.

Þetta kom fram í fréttum Útvarpsins í kvöld. Þá hefur Jón Diðrik Jónsson, fyrrum forstjóri Glitnis á Íslandi, sem nýlega var ráðinn til tímabundinna verkefna til áramót, keypt fyrir 30 miljónir króna á genginu 1,3 og það sama stendur Guðmundi Þóroddssyni, forstjóra, til boða. Þá keypti Bjarni Ármannsson, stjórnarformaður fyrirtækisins, 500 miljóna króna hlut í síðasta mánuði.

Fram kom í fréttum Útvarpsins, að þeir fjórir starfsmenn Reykjavik Energy Invest, sem fá að kaupa bréf á genginu 2,77, eru Rúnar Hreinsson verkefnastjóri, Guðmundur F. Sigurjónsson, sem starfar við alþjóðleg samskipti, Gunnar Örn Gunnarsson, fyrrum stjórnarformaður Íslenskrar nýorku og Hafliði Helgason sem vinnur að samskiptum á alþjóðavettvangi.

Þeir sex sem fá að kaupa á genginu 1,3 eru Grímur Björnsson, Vilhjálmur Skúlason, Einar Gunnlaugsson, Gestur Gíslason, Jakob Friðriksson og Þorleifur Finnsson.

Allan starfsfólk OR getur skráð sig fyrir kaupum á 100, 200 eða 300 þúsund króna hlutum að nafnvirði á genginu 1,3.

Guðmundur Þóroddsson sagði við fréttastofu Útvarps að ástæðan fyrir því að þessi hópur fái að kaupa á hagstæðara gengi sé sú að þeir hafi unnið lengur en hinir að sameiningu Reykjavík Energy Invest við Geysi Green Energy. Ef kaupendur hætta störfum innan tveggja ára verða þeir að selja félaginu hlut sinn og fá þá vísitölutryggt verð fyrir hann. Ef þeir eiga hlutinn hins vegar lengur geta þeir selt hann á markaðsvirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert