Ólafur Ragnar í opinbera heimsókn til Katar

Ólafur Ragnar Grímsson.
Ólafur Ragnar Grímsson. mbl.is/Ómar

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, fer í opinbera heimsókn til Katar dagana 22.-25. janúar. Er það í fyrsta sinn sem forseti Íslands fer í opinbera heimsókn til ríkis í Arabaheiminum, samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu forseta Íslands. 

Á dagskrá heimsóknarinnar eru viðræðufundir með þjóðarleiðtoga Katar Hamad Bin Khalifa Al Thani og öðrum forystumönnum landsins og þátttaka í samræðum um tækifæri smárra ríkja í hagkerfi 21. aldar.

Þá munu Ólafur Ragnar og íslensk  viðskiptasendinefnd  hitta fulltrúa fyrirtækja í Katar en Útflutningsráð hefur annast undirbúning þeirra funda. Ólafur Ragnar mun auk þess taka þátt í hádegisverði í boði Kaupþings og heimsækja skrifstofur bankans. Þá mun hann kynna sér starfsemi sjónvarps­stöðvarinnar Al Jazeera.

Í för með Ólafi Ragnari eru Össur Skarphéðinsson, iðnaðarráðherra, embættismenn frá iðnaðarráðuneyti, utanríkisráðuneyti og forseta­embættinu og fjölmargir fulltrúar íslenskra fyrirtækja.

Ólafur Ragnar mun áður taka þátt í heimsráðstefnu um framtíð orkumála, World Future Energy Summit, sem haldin er í Abu Dhabi í Sameinuðu arabísku fursta­dæmunum 20.-22. janúar.

Hann mun flytja ræðu á opnunarfundi ráðstefnunnar og tekur þátt í umræðum. Össur flytur einnig ræðu á ráðstefnunni.

Þá situr Ólafur Ragnar, ásamt Ismail Omar Guelleh, forseta Djíbútís, sérstakan kynningarfund sem haldinn verður í Abu Dhabi um jarðhita­samvinnu Íslands og Djíbútís. Lagður var grundvöllur að þeirri samvinnu í heimsókn forseta Djíbútís til Íslands í febrúar í fyrra. Við það tækifæri var undirritaður samningur Orkuveitu Reykjavíkur við stjórnvöld í Djíbútí um rannsóknir og nýtingu jarðhita.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert