Þrír þiggja laun borgarstjóra

Á fimmtudag mun þriðji meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur taka við völdum á innan við tveimur árum og þá munu þrír þiggja borgarstjóralaun á sama tíma, skv. upplýsingum úr borgarstjórn.

Sem kunnugt er mun Ólafur F. Magnússon setjast í stól borgarstjóra en auk þess á Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson rétt á sex mánaða biðlaunum og Dagur B. Eggertsson á þriggja mánaða biðlaunum. Þetta mun hafa aukakostnað í för með sér en laun borgarstjóra nema rétt rúmri einni milljón króna.

Þess ber að geta að ekki er um að ræða viðbót við laun þeirra sem borgarfulltrúar heldur munu heildarlaun hvers og eins um sig nema rúmri milljón.

Laun borgarfulltrúa nema um 80% af þingfararkaupi sem er um 530.000 kr. Laun borgarstjóra miðast hins vegar við laun forsætisráðherra sem nema rúmri einni milljón kr.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert